Hafdís Inga Hinriksdóttir heitir einn af þremur nýjum þáttastjórnendum hjá Nýtt Útlit á Skjá einum.
Hafdís er menntaður förðunarfræðingur, félagsfræðingur og hefur jafnframt verið atvinnumaður í handbolta. Hún er í sambúð með Söndru Sigurðardóttur knattspyrnuhetju og saman búa þær ásamt dóttur Hafdísar henni Birtu í Hafnarfirði. Hafdís á 1280 vini á Facebook, er með próf í reiki heilun, hefur barið gat í hurð með hornaboltakylfu og finnst gaman að horfa á Desperate Housewifes.
Hvernig kom það til að þú fórst að vinna við Nýtt Útlit? Ég sat í makindum mínum í vinnunni í sumar og fékk símtal frá framleiðanda þáttarins sem bauð mér að koma í þáttinn. Eftir smá umhugsun og nokkra fundi ákvað ég að slá til og sé ekki eftir því.
Hver er uppáhalds snyrtivaran þín? Úfff ég á ofsalega erfitt með að velja á milli barnanna minna en ég held að ég verði að segja nýji prep+prime Neutralize primerinn sem dregur úr roða. Ég er ein af þeim óheppnu sem eru með rósroða og er því dálítið ‘desperate’ að finna mér eitthvað sem dregur úr roðanum og mig hefði aldrei órað fyrir árangrinum.
Hugsaði allt of mikið
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið? Ég var alveg hræðileg með að hugsa of mikið og sofna seint en er sem betur fer að ná að snúa því stríði við. Þó kemur fyrir að maður detti í “að hugsa of mikið” pakkann af og til. Og þá sérstaklega ef að mikið er að gera og stressið í hámarki.
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu? Það er svo ótrúlega margt skemmtilegt að fara að gerast, sumt sem má segja frá og annað ekki. Ég er til dæmis að útskrifast með BA próf úr félagsráðgjöf í vor og svo var ég að ná mér í Reiki heilunargráðu þannig að ég má kalla mig heilara.
Hefurðu séð draug? Já, já…
Þekkirðu óvenjulega marga einstaklinga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það? Já, ég þekki fáránlega marga hrúta og jafnvel fólk sem á afmæli sama dag og ég, 1 apríl .
Hvaða merki ert þú? Nú, ég er hrútur.
Amma og Vigdís Finnboga
Áttu uppáhalds hönnuð? Já ég á mér nokkra. Til dæmis Vivienne Westwood, Magna og Hugrúnu í KronKron og svo er uppáhalds skóhönnuðurinn minn engin önnur en Chie Mihara.
Flottasta fyrirmyndin? Ég leit upp til og lít enn upp til ömmu minnar heitinnar, Laufeyjar Jakobsdóttur eða ömmunar í Grjótaþorpi eins og hún var kölluð. Megas syngur um hana í lagi sínu um Krókódílamanninn þar sem hann talar um bjargvættinn Laufey. Og ég verð líka að nefna Vigdísi Finnbogadóttur sem ég lít gríðarlega mikið upp til, man þegar ég var lítil og amma kynnti mig fyrir henni. Ég tók í hendina á henni og hét mér því að þvo mér aldrei um hendurnar eftir það, sem ég hef reyndar ekki staðið við.
Hvaða 5 hluti tækirðu með á eyðieyjuna?
- Iphone
- Hleðslutækið fyrir hann
- Sveðja
- Bátur
- …og 2 árar
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu? Kannski ekki beint ástfangin en ég á mér nokkrar sem eru mjög sjarmerandi. Þegar ég var lítil fannst mér Gummi Jóns í Sálinni alveg hrikalega sætur.
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum? Úff, ég myndi nú seint telja mig vera einhvern sambandsráðgjafa –en ætli það sé ekki bara virðingarleysi?
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna? Þar sem ég er frekar félagslynd persóna þá elska ég að hitta nýtt fólk og gera fjölbreytta hluti. Því má segja að það sem ég vinn við eigi mjög vel við mig.
En erfiðast? Mér finnst mjög erfitt að horfa á þættina og það mun sennilega seint venjast. En svo getur þetta líka bara verið mikið stress og álag, þó svo að þetta sé virkilega gaman.
Barði sér leið með hornaboltakylfu
Hvaða kaffihúsi eða veitingastað í borginni myndirðu mæla með? Ég myndi klárlega mæla með Trúnó, það er svo ótrúlega kósý kaffihús þar sem fólk fær að vera eins og það vill. Og það eru svo skemmtileg nöfn á öllu á matseðlinum líka. Veitingastaðurinn væri klárlega Grillmarkaðurinn, hrikalega töff staður og góður matur.
Manstu eftir vandræðalegu atviki sem henti þig á gelgjuskeiðinu? Ég á mjög mörg vandræðaleg atvik á gelgjunni og reyndar bara í lífinu almennt. En ætli það hafi ekki verið þegar ég reyndi að ryðja mér leið inn í sameiginlegt herbergi mitt og bróður míns með hornabolta kylfu. Svo reyndi ég að hylja slóðir mínar með því að líma risa stóran límmiða yfir gatið sem var í hurðinni.
Hvernig langar þig að verða í ellinni? Mig langar að hafa silfur-hvítt hár, sátt og hamingjusöm með lífið og umvafin fjölskyldu og ættingjum.
Að lokum: Heilræði til okkar hinna? Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Það eina sem mér dettur í hug er “live and let live”.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.