Kynjafræðingurinn og sjósundkappinn Anna Bentína Hermansen hefur vakið athygli að undanförnu fyrir skelegg skrif um mál tengd kynferðisofbeldi og fleiru. Hún hefur unnið ýmis störf til sjávar og sveita, á 1082 vini á Facebook, segist búa með nokkrum draugum en á ekkert erfitt með að sofna:
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið? Ég á mjög auðvelt með að sofna á kvöldin. Samt hugsa ég mjög mikið, en nú orðið hef svo góða stjórn á huganum að ég slekk á honum eins og lampa.
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu? Að vakna á morgun, hver nýr dagur er dásamleg gjöf og ótrúlega spennandi. Grínlaust!!!
Hefurðu séð draug? Já og bý með nokkrum í sátt og samlyndi. Þegar ég verð búin að gera upp fortíðina er ég viss um að þeir finni sér annan leigusala.
Þekkirðu óvenjulega marga einstaklinga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það? Ég þekki óvenju marga fiska af einhverjum ástæðum. Líklega vegna þess að ég syndi svo mikið í sjónum.
Í hvaða merki ert þú? Ég er meyja með rísandi krabba, venus í ljóni og hnígandi sporðdreka með bogmann í 4 húsi.
Áttu uppáhalds hönnuð? Já Guð.
Flottasta fyrirmyndin? Ingibjörg Pétursdóttir (Bimba) fósturmóðir mín.
Uppáhals tímasóunin? Að drepa tímann og særa eilífðina.
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna? Geimfari eða sjómaður. En líklega væri ég bóndi ef ég væri ekki prestur. En af einhverjum ástæðum varð ég kynjafræðingur með sérstaka áherslu kynbundið ofbeldi. Það eru svo margir möguleikar og ég er ekki enn búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.
Hvaða 5 hluti tækirðu með á eyðieyjuna?
- Bát
- Síma
- Vatn
- Mat
- …og landkort til að komast þaðan sem allra fyrst.
Hvernig bíl langar þig í? Mig langar ekki í fleiri bíla, á tvo nú þegar. Langar bara ekki í neitt sem ég á ekki nú þegar. Nema kannski aðeins minna af skuldum, ég er alveg tilbúin til að gefa þær frá mér ef einhvern vantar.
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu? Nei.
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum? Ég hef stundum haldið því fram að við séum farin að markaðsvæða sambönd. Skiptum um maka eins og hluti. Ég hef ekki skilið þennan skiptimarkað og finnst hann lítið spennandi. Þú situr alltaf uppi með sjálfan þig sama hversu oft þú skiptir. Að vera í sambandi tekur oft á og kostar vinnu og þú færð eins mikið út úr því og þú leggur í það. Lausnin er sjaldast sú að flýja af hólmi og lenda í sömu krísunum annars staðar. Þú flýrð aldrei sjálfan þig.
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna? Allt það frábæra fólk sem umlýkur mig. Hver einasta manneskja er kennari sem ég er misfær um að læra af. Ég á frábæra vini, fjölskyldu og vinnufélaga. Mér leiðist aldrei og finnst lífið ótrúlega spennandi.
En erfiðast? Að neita sér um að upplifa mikilvæga reynslu vegna ótta við mistök. Það er skelfilegt fangelsi að vera í og þangað fer ég stundum.
Hvaða kaffihúsi eða veitingastað í borginni myndirðu mæla með? Laugarási, ekki spurning. Humarsúpan þar er algjört lostæti. Þar er líka ótrúlega gott kaffi og þægilegt andrúmsloft.
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna? Geimfari eða sjómaður. En líklega væri ég bóndi ef ég væri ekki prestur. En af einhverjum ástæðum varð ég kynjafræðingur með sérstaka áherslu kynbundið ofbeldi. Það eru svo margir möguleikar og ég er ekki enn búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.
Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar:
- Color Purple
- Shawshank Redemption
- Magnolía
- Betty Blue
- Babettes Gæstebud
Hvað ertu að fara að gera á eftir? Skrifa grein á spegill.is um brýn málefni og samfélagslega ábyrgð.
Manstu eftir vandræðalegu atviki sem henti þig á gelgjuskeiðinu? Allt gelgjuskeiðið var vandræðalegt hjá mér.
Hvernig langar þig að verða í ellinni? Smurstöðvareigandi……nei heilsuhraust og skemmtileg með hausinn enn í lagi. Ég ætla að verða eilífðar stúdent. Líklega taka doktorinn í einhverju skemmtilegu eins og burðarþoli brúa eða að vinna nóbelinn í stærðfræði.
Að lokum: Heilræði til okkar hinna? Drekkið nóg vatn, notið alltaf sólarvörn og í guðanna bænum ekki taka lífinu alvarlega því við lifum það aldrei af. Skemmtu þér reglulega, gerðu eitthvað eitt á hverjum degi sem reynir á þig og þú ert hrædd við og þú munt komast yfir óttan á endanum. Mundu síðan að þú sérð hlutina eins og þú ert ekki eins og þeir eru í raun.
Sjáðu fegurðina í öllu því það vex sem þú nærir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.