Ég á vinkonu sem bauð fjölskyldu og vinum í brúðkaup sitt sem er kannski ekki í frásögur færandi. Hinsvegar var staðsetningin aðeins öðruvísi því fallegur kastali varð fyrir valinu.
Hann var þeirra og gestanna yfir helgina, staðsettur í Frakklandi.. þetta var fyrir 10 árum en hjónin eru íslensk og hafa aldrei búið erlendis. Heimili þeirra er á Íslandi og hanga fallegar brúðkaupsmyndir á veggjum þeirra – falleg brúðhjón í faðmlögum með flottan kastala í bakgrunni.
Það virðist vera vinsælt hjá fólki að finna einhvern stað sem er ólíkur þeirra daglega umhverfi fyrir brúðkaup.
Kannski til að minningin sé ógleymanlegri, færa sig úr rútínunni og daglegu stressi til að eiga ævintýralegan tíma með ástinni?
Staðir eins og Jamaica eða Hawaii sem hafa fallegar hvítar sandstrendur eru t.d. vinsælir en þar geta brúðurinn og brúðguminn verið berfætt og léttklædd á ströndinni. Svo eru þeir ævintýragjörnu sem velja helgarferð til Las Vegas – detta ærlega í það með vinunum og fá jafnvel ‘Elvis Presley’ til að gifta sig..!
Þetta flotta par á myndunum er frá Michigan í Bandaríkjunum. Þau buðu þau fjölskyldum og vinum í brúðkaup sitt á Íslandi og var giftingin í lítilli íslenskri sveitakirkju. Spurning hvort flatkökur með hangikjöt hafi verið í boði í veislunni?
Parið valdi einnig íslenskan ljósmyndara en hann heitir Bragi Þór og hefur starfað sem ljósmyndari til fjölda ára, meðal annars fyrir tímaritið Hús & hýbíli.
Myndirnar hans Braga eru ferskar og flottar og það er æðislegt að sjá brúðkaupsmyndir í litríkri náttúru íslands. Þar sést nýgifta parið ganga saman, slök og happý, með fjöllin okkar og heita hveri í kring en æðislegri bakgrunn er varla hægt að fá fyrir brúðkaupsmyndir sínar.
Og svona í lokin, vinaparið mitt sem gifti sig í frönskum kastala er enn hamingjusamlega gift… en hvort það var valið á kastalanum sem olli því veit ég ekki!
Ljósmyndir: Bragi Þór Jósefsson http://www.icelandweddingphoto.com/ tekið af vefsíðunni: http://ruffledblog.com/2010/07/small-intimate-wedding-in-iceland/
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.