Hvað gerir kona sem fær hláturskast í yoga, verður nánast fötluð af zumba, skemmir tíma í magadansi og drepur sig nánast í stöðvarþjálfun? Hún spyr sig.
Ég veit ekki hvort það hefur komið fram en ég er mjög lítill íþróttaálfur. Ég er samt álfur, en bara ekki íþrótta. Mín daglega hreyfing snýst í kringum hundinn. Litla ræfilinn sem býr af einhverjum ástæðum hjá mér. Hann elskar að labba og þar sem ég get ómögulega sent hann einan þá skakklappast ég með. Við göngum því saman 4-6 km á dag. Það er fínt. En öðru hverju (í upphafi hvers árs) þá finnst mér að ég verði að gera eitthvað meira af því þetta eru ekki beint neinar íþróttaæfingar.
Stöðvaþjálfun og ég?
Í gegnum árin hef ég verið staðfastur áskrifandi margra stöðva og þannig haldið þeim mörgum á floti án þess að stíga nokkrum sinni fæti inn fyrir þeirra dyr. Það liggur því ljóst fyrir að ég er ekki að fara að lyfta. Síðast fór ég í eitthvað voða flott dæmi með stöðvaþjálfun og lóð í hendi. Sjö stöðvar eða eitthvað álika bilað og ein þeirra upp á palli. Þegar mér tókst að komast upp á pallinn með lóð í sitthvorri hendi og blindandi svitatauma í báðum augum þá fattaði ég að ég þyrfti að komast niður aftur. Já með lóðin og svitann.
Þetta sem leit út fyrir að vera einfalt var bara alls ekki svo einfalt. Ef ég hefði sett annan fótinn í einu hefði ég örugglega fótbrotnað. Ef ég hefði hoppað jafnfætis hefði ég farið svo langt niður með hendurnar (og lóðin) að lóðin hefðu gert gat í gólfið. Og hvað gera bændur þá? Ekki gat ég lagst á magann og farið þannig öfugt niður eins barn sem er að læra að ganga (og enn með lóðin). Mig minnir að á endanum hafi ég lagt lóðin frá mér, hoppað niður og tekið þau svo tignarlega upp aftur eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi.
Þá bara get ég ekki gert æfingar á sama tíma með höndum og fótum. Get alveg fætur. Get líka alveg hendur. En það er þegar þetta á að koma saman á sama tíma og kannski ekki sama hlið heldur vinstri hönd og hægri fótur.
Ég hef líka farið í margskonar dans. Meðal annars magadans. Það var æði. Var í svona peningapilsi sem djöflaðist og heyrðist í langar leiðir. Ótrúlega skemmtilegt. Held samt að kennaranum hafi ekki þótt ég mjög skemmtileg vegna þess að ég get ómögulega verið í takt við aðra og eins og það sé ekki nóg, þá bara get ég ekki gert æfingar á sama tíma með höndum og fótum. Get alveg fætur. Get líka alveg hendur en þegar þetta á að hreyfast á sama tíma þá glymur í peningapilsinu á röngum stað í laginu.
Zumba er fyrir alla
Ég fór líka í Zumba. Það var svo skemmtilegt en eftir þrjár vikur var önnur höndin föst í einhverri afkáralegri stellingu og ég gat varla gert hin heimilislegustu störf eins og t.d. klæða mig brjóstahaldara (sem er mér jafn nauðsynlegur og skófatnaður). Ég reyndi að þrauka en þegar ég var farin að grenja bara við tilhugsunina um að lyfta hendinni 2-3 cm þá ákvað ég að fara á slysó. Læknirinn hlustaði á mig af alvöru, sagði mér að standa út á gólfi og lyfta endinni upp til hliðar og ég fór að gráta. Hann sagði mér að hætta þessu væli, gaf mér sprautu og saði mér að hætta að leika íþróttahetju (ókey hann sagði það að vísu ekki en hljómar rosa vel). Þar fór zumba metnaðurinn.
Gæti ég farið í Yoga?
Fyrir mörgum árum fór ég í yoga. Það var eitthvað sér afbrigði sem ég veit ekki hvað heitir en vinnustaðnum var boðið á þetta. Rosalega skemmtilegt (NOT). Við áttum m.a. að standa í hring og herma eftir dýrum. Allt í lagi svona út af fyrir sig en þegar eg horfði á samstarfskonur mínar leika apa og ljón og allt það fékk ég alltaf hláturskast. Alltaf, hvert einasta sinn! Að endingu bað kennarinn mig vinsamlega að hætta og koma aftur þegar ég hefði fullorðnast aðeins. Held samt þetta hafi ekki enst hjá henni því það vill enginn af yoga vinum mínum viðurkenna að svona yoga sé til þannig að hún hefur ábyggilega orðið að hætta eftir að hún rak mig.
Þannig að nú bíð ég eftir að lægðum linni svo ég geti farið að hlaupa eða eitthvað annað. Á meðan held ég bara áfram að staualst á eftir hundinum.
Kær kveðja Anna íþróttaálfur og Prinsi
PS: Það væri ekkert verra að fá uppbyggilegar ábendingar um hvaða íþróttaiðkun gæti komið til greina fyrir mig, konu sem er álfur – bara ekki íþrótta. Það er kommentakerfi neðar á síðunni 😉
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.