Á eftir sunnudögum í París þykir mér vænst um laugardagana. Parísarhelgar eru án efa bestu stundir vinnandi fólks: Þá má slaka á og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.
Það besta í heimi er að dansa alla nóttina á föstudagskvöldi, dansa þangað til fyrstu kaffihúsin opna fyrir gestum og gangandi um fimmleytið. Það er svo gaman að vera pínulítið hífaður, djazzaður og kaffivímaður svona í morgunsárið. Allir hinir eru enn sofandi, allir nema þú sem situr með kaffibollann þinn og átt götuna af því að þú ein ert vakandi.
Svo þegar hinir vakna þá byrjar laugardagurinn og þá er svo ótal, ótal margt sem má gera eftir að búið er að sofa það mesta úr sér. Passa sig bara að sofa ekki of lengi.
Það má skoða í Colette tískuhúsið sem er staðsett á rue du Faubourg St. Honoré, taka púslinn á tískunni og láta sig dreyma. Kíkja í kaffi á Hótel Costes sem er líka í götunni. Panta sér kannski bröns og kampavín áður en klukkan slær tólf! Að því loknu er enn betra að láta þreytuna líða úr sér við lesur góðs tímarits – Hello eða eitthva álíka gáfulegt?
Það má finna bestu tímaritin í ensku bókabúðinni WH Smith á Rue du Rivoli. Þaðan eru svo bara tvö skref yfir í Tuilerie garðana. Þú kemur þér fyrir í þessum hörðu grænu stólum og sötrar kannski einn lítinn expressókaffi á meðan sólin leikur um andlitið – svona er hægt að njóta þess bara að vera til, einn eða með öðrum á góðum degi í París.
Smelltu á myndirnar til að upplifa stemninguna:
Hér er svo myndband sem sýnir götutískuna í rue du Fbg. St. Honoré:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.