Indverska Kvikmyndahátíðin er um þessar mundir haldin í annað sinn í Bíó Paradís en hátíðin var fyrst haldin á sama stað fyrir ári síðan.
Ég skellti mér að sjálfsögðu þá og kíkti á hátíðina aftur í ár enda eru Bollywood myndir engu líkar!
Hátíðin stendur yfir dagana 8.-13. apríl og að þessu sinni verða kynntar til leiks 6 nýlegar kvikmyndir og ein klassísk bíómynd í nýútkominni þrívíddar útgáfu. Að sjálfsögðu eru allar myndirnar sem sýndar eru á hátíðinni gæðamyndir og er ætlun þeirra sem standa að kvikmyndahátíðinni að gera enn betur en síðast.
Ég kíkti á opnunarhátíðina þar sem myndin English Vinglish var sýnd. Myndin fjallar um ungu húsmóðurina Sashi Godbole (Sridevi) sem er mjög fær í að gera indverska eftirréttinn laddoo. Sridevi finnst hún ekki vera metin að verðleikum heima hjá sér þar sem hana skortir enskukunnáttu en þegar hún er beðin að koma til New York til þess að undirbúa brúðkaup frænku sinnar fær hún óvænt tækifæri til þess að bæta sig í enskunni og styrkja sjálfsálitið í leiðinni. Hún fer að endurskoða líf sitt í framhaldi af því og þar af leiðandi sambandið við fjölskylduna. Englidh Vinglish er rómantísk gamanmynd sem gerist að mestu í New York. Myndin er byggð á ævi móður leikstjórans og lýsir vel erfiðleikum og skondnum uppákomum sem búast má við sem nýbúi í ókunnri stórborg. Kvikmyndin hlaut mikið lof þegar hún kom út og leikkonunni Sridevi hefur verið líkt við Meryl Streep og þykir myndin mikill leiksigur fyrir hana.
Ég skemmti mér stórkostlega vel á myndinni og þó hún sé í lengra lagi líkt og flestar indverskar kvikmyndir þá heldur hún manni við efnið allann tímann!
Dagskrá hátíðarinnar og nánari upplýsingar um aðrar myndir sem sýndar eru á hátíðinni má finna hér.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Ki0A9bOoyq8#t=171[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.