Þriggja ára gömul sneri ég mér í hringi á stofugólfinu með gamlan stráhatt á höfðinu á meðan móðir mín (eflaust með niðurbældan hlátur) spurði hvort ég vildi fara í ballett.
Ég sló til, hæstánægð með málin en sjálfri fannst mér óþarfi að fara í balletskóla – ég var jú nú þegar orðin stórstjarna (sbr. stráhattinn) og var tilbúin að ganga í Bolshoj-ballettinn ekki seinna en strax. Ballettferli mínum lauk síðan ekki fyrr en heilum 14 árum seinna þegar unglingaveikin sprakk og ég hætti, fullviss um að það myndi aldrei neinn vilja sjá mig dansa – með vatnsmelónubrjóstin mín og mjaðmir sem gætu rúmað tveggja sæta sófa + fótskemil – nei, ég var snarhætt að dansa.
Það var síðan í haust sem ég sá að Kramhúsið auglýsti Beyonce-dansnámskeið undir handleiðslu Margrétar Erlu Maack.
Allt í einu langaði mig svo að fara dansa, þörfin blossaði upp en óöryggið yfirtók hugmyndina fljótlega. Ég andvarpaði, potaði í pepsívængina mína og hætti við. Eftir mikið tiltal frá stuðningsfulltrúum mínum gaf ég loks eftir og skráði mig. Nú munu lærapokarnir sko titra, hugsaði ég með mér þegar ég hélt af stað í fyrsta tíma námskeiðsins.
Það voru þó ekki liðnar 5 mínútur af fyrsta tímanum þegar ég var hóf að dansa sem aldrei fyrr. Þarna voru bæði byrjendur sem lengra komnir en allir gátu notið sín, sporin eru einföld og engin áhersla er lögð á að vera í takt eða fylgja hópnum. Þessar fyrstu mínútur voru skemmtilegri en öll fjórtán árin mín í ballet til samans og eftir tímann skokkaði ég sveitt og hamingjusöm heim. Næstu vikur voru stórskemmtilegar og ég bæði lærði að dansa á nýjan hátt og að meta líkama minn. Allt í einu spilaði hamborgararassinn minn lykilhlutverk í danssporum, aldrei hefði ég trúað því.
Á næstu dögum hefjast ný námskeið hjá Kramhúsinu og er þar gríðarlega margt í boði m.a. Burlesque, magadans, Bollywood-dans, tangó og margt fleira. Að eiga einn klukkutíma á viku sem snýst eingöngu um að hafa það gaman og hrista á sér rassinn hefur ótrúlega góð áhrif á sálarlífið. Þetta er frábær hreyfing og þar að auki hverfa allar áhyggjur dagsins þegar tónlistin byrjar. Þá tekur dansinn við og allt annað fær að bíða á hliðarlínunni.
Hér að neðan má finna myndir af jólasýningu Kramhússins þar sem hópar vetrarsins sýndu listir sínar. Glöggir lesendur geta séð undirritaða bregða fyrir og á myndunum af dæma virðast áhyggjur af lærapokum og hliðarspiki ekki hafa náð með á sviðið.
Ég hvet alla áhugasama og sérstaklega þá sem eiga það til að dansa í leyni (líkt og þeir sem syngja í sturtu) að fara á námskeið í Kramhúsinu – byrjendur jafnt sem lengra komnir eru hjartanlega velkomnir.
Heimasíðu Kramhússins má finna hér
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.