Það er ekki uppáhaldið okkar að hósta, hnerra og vera með flensu – en það fá hana allir af og til.
Það er misjafnt hvernig við tökumst á við hana og við höfum flest heyrt um leiðir til að ná heilsu sem fyrst aftur: Borða hollt, drekka nóg vatn og drekka heita drykki, hafðu gott loft inni hjá þér, sofðu mikið, drekktu engifer-te ofl. Þrátt fyrir þetta getur tekið sinn tíma að fá heilsuna aftur, sama hvaða aðferðir við notum til að losna við hana á meðan á henni stendur.
Mig langar hinsvegar að tala meira um andlegu heilsuna því það skiptir líka máli að hugsa um andlegu hliðina þegar við erum líkamlega veik. Okkur finnst oft eins og við séum ómissandi og hver dagur sem við erum veik hugsum við um verkefnin sem bíða okkar.
Hafðu samt hugfast að þetta er hluti af lífinu. Hvernig getur það því alltaf komið okkur sífellt á óvart þegar við þurfum að taka veikindadaga úr vinnunni eða skólanum? Hættum að láta þetta koma okkur á óvart og tökum lífinu eins og það kemur, og gerum það besta úr því.
1. Kósý og fínt
Reyndu að hafa snyrtilegt í kringum þig, kveiktu jafnvel á kertum og náðu í allt sem þú vilt hafa í kringum þig svo þú þurfir ekki að hlaupa um nema nauðsynlegt sé.
2. Það er gaman að sofa
Njóttu þess að mega sofa eins lengi og þú vilt, þetta eru ekki aðstæðurnar sem okkur dreymir um en gerum gott úr þeim!
3. Náttfatadagur
Farðu í þægilegustu náttfötin þín, þú þarft ekki að fara úr þeim allan daginn, hvenær gerðist það seinast?
4. Hressandi sjónvarpsefni
Horfðu á sjónvarpsefni sem lætur þér líða vel og er hvetjandi.
5. Skemmtileg tónlist
Hlustaðu á uppáhalds tónlistina þína, ekki of hátt samt.
6. Sortera og dunda sér
Nýttu tímann til þess að endurraða myndunum í tölvunni þinni, velja myndir til að prenta út og setja í albúm eða taka til í skjölunum.
7. Róaðu hugann
Skrifaðu það sem þér býr í huga, teiknaðu það sem þú hefur viljað teikna, litaðu í litabókina þína.
8. Dagdraumar og framtíðarplön
Taktu upp bókina eða tímaritið sem þú hefur beðið eftir að fá tíma til að lesa eða leyfðu huganum að fljúga um og dagdreyma.
9. Gott bað
Ef þú ert ekki of veik þá getur notalegt bað gert kraftaverk, það hjálpar þér að slaka á.
10. Dekraðu við þig
Dekraðu við þig, lagaðu neglurnar á þér, plokkaðu augnabrúnirnar, settu á þig maska!
11. Sendu póst eða hringdu símtöl
Oft gerist það að vegna tímaleysis náum við ekki að hafa samband við alla sem við viljum, nýttu tímann í það og hafðu samband.
12. Good times
Skoðaðu gamlar myndir og rifjaðu upp jákvæðar og góðar minningar.
13. Prjónað og heklað
Ef þú prjónar eða heklar þá er þetta frábær tími til að vinna í meistaraverkunum þínum og búa til sokka á einhvern nákominn, eða fyrir þig sjálfa!
14. Markmið og plön
Skoðaðu lífið þitt og drauma og settu þér markmið.
15. Bíómaraþon
Taktu bíómyndamaraþon – búa til smá þema í sjónvarpsglápið – til dæmis ferðalög eða ævintýri
16. Nýr playlisti
Búðu til playlista með uppáhalds lögunum þínum sem koma þér í besta skapið!
17. Smá hugleiðsla
Hugleiddu, settu á hugleiðslutónlist, farðu í þægilega stellingu og nýttu þennan auka tíma til að loksins byrja að hugleiða.
18. Kisur og LOL
Vafraðu um Youtube og finndu fyndin myndbönd sem láta þig hlæja – hlátur gerir allt betra! Nú eða krúttlegar kisur.
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.