Við vitum það öll að íslenska þjóðin er að fitna, allir vita að það á að borða grænmeti og ávexti og eru jafnan duglegir að bæta því inn í matarræðið en það sem mér finnst áberandi, er að því er kannski bætt við, en hinni óhollustunni haldið áfram samhliða.
Eitt af því sem við borðum gjarna í miklu óhófi eru hveiti, sykur og kjöt sem er uppistaða margra í daglegu matarræði.
Þannig byrjar maður á ristuðu brauði og kaffi eða te á morgnana, fær sér svo jafnvel pasta með kjötsósu, súpu og brauð eða samloku í hádeginu og svo aftur brauðmeti eða kökur í kaffinu, kjöt og kartöflur með sósu í kvöldmat. Þó maður bæti grænmeti við og borði ávexti milli mála þá eru hér komnir 5 vænir skammtar af vondum kolvetnum.
Í fyrra breytti ég matarvenjum mínum eftir að hafa bætt á mig á meðgöngu.
Ég var að lesa matardagbækurnar sem ég gerði þegar ég var að byrja og fannst ótrúlegt að fyrstu vikurnar gat ég ekki farið í gegnum einn dag án þess að borða sætindi. Það var “pínu” svindl daglega og a.m.k tveir dagar í viku sem ég hrundi í skyndibitafæði, sætabrauð , nammi og snakk. Mér gekk mjög vel að breyta matarvenjum mínum og koma líkamsrækt inn í rútínuna en þegar ég byrjaði að vinna breyttist rútinan og ég hef ekki komið henni í lag. Ég er nú byrjuð á sjálfri mér en finnst hægara sagt en gert að breyta matarvenjum annarra fjölskyldumeðlima.
1. Fyrsta skref er að hætta að henda rusli í innkaupakörfuna.
Á bannlista er: Hvítt brauð, súkkulaðikex, sykurkex, sósur með majónesi, sykrað morgunkorn, allar vörur sem innihalda aspartam ( skyr.is, sykurlaust gos, sykurlaus svali og flestar vörur sem eru merktar „sykurlausar“) örbylgjupopp (transfitusýrur) og helst engar með ákveðnum E-efnum (pylsur, unnar kjötvörur, pakkamatur, sósur) franskar, hvítlauksbrauð, nammi og snakk.
Í staðinn kemur gróft brauð (spelti) hrökkbrauð og sykurlaust hafrakex, haframjöl í hafragraut og rúsínur til að sæta. Ég bý til kaldar sósur með lífrænni jógúrt eða sýrðum rjóma í stað majóness, venjulegt skyr sem ég blanda með ávöxtum og berjum, hreinn ávaxtasafi, ávextir, ber og grænmeti, ferskt kjöt, ferskur fiskur, sætar kartöflur, brún hrísgrjón.
2. Skipuleggja matseðil viku fram í tímann
Mér finnst best að setjast yfir uppskriftir á miðvikudegi og kaupa inn fyrir næstu viku á fimmtudegi því ég hef komist að því að á fimmtudögum er besta og ferskasta úrvalið í búðum. Að skipuleggja næstu viku og kaupa inn fyrir hana er góð leið til að halda manni við efnið og maður dettur síður „í það“. Frábærar uppskriftir fást t.d. hjá Café Sigrún, Næring og heilsa, Himneskt og Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?
3. Halda matardagbók
Þegar ég tók mig í gegn var ég látin halda matardagbók og skila henni til einkaþjálfarans vikulega. Það var gott að láta skamma sig og eftir því sem vikurnar liðu stóð ég mig betur og fór að keppa við sjálfa mig að standa mig. Þetta er gott ráð hvort sem maður hefur einkaþjálfara, vin/maka eða bara sjálfan sig til að skamma sig eða klappa á bakið.
4. Skipuleggja hreyfingu
Hvort sem þú velur að fara út að ganga, hjóla, hlaupa eða sippa, í líkamsrækt, sund eða á eitthvað námskeið þá skiptir höfuðmáli að ákveða hvenær þú ætlar að hreyfa þig og gera ráðstafanir til að komast á þeim tíma. Það getur verið erfitt að finna tíma en það þarf ekki að fara á 1-3 tíma æfingar. Bara það að hreyfa sig í hálftíma skiptir miklu máli. Gerðu raunhæfar kröfur – það er líklegra að þú standir við þær.
Nokkur önnur góð ráð sem ég hef sankað að mér:
Hafðu hreyfinguna skemmtilega eða gerðu hana skemmtilega!
Borða ávexti fyrir hádegi, grænmeti eftir hádegi og aldrei borða kolvetni á kvöldin. (Kolvetni eru t.d. hveiti, sykur, pasta, hrísgrjón og kartöflur).
Borða trefjar fyrir æfingu (gefur orku) og prótín eftir æfingu (uppbygging vöðva).
Snarlþörf: Eigðu alltaf til frosin ber/ávexti og sojamjólk eða hleðslu til að búa til ljúffengan sjeik ef sykurþörfin hellist yfir þig, poppaðu þér popp á gamla mátan með fitulítilli olíu og litlu salti og ef þú ert enn sjúk í súkkulaði þá er hægt að búa sér til þessar ljúffengu kókoskúlur eða kakó.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.