Það eru ófáar manneskjur sem hafa fengið þessa spurningu: “ertu með tattú?”.
Sú var tíðin að tattú eða húðflúr voru afar sjaldgæf sjón á íslendingum. Tattú voru í raun einungis á sjómönnum og þá var það helst mynd af skreyttu akkeri, hjarta, snákur, sverð, nafn ástkonu og rós, jafnvel mynd af brjóstagóðri konu sem skreyttu handleggi eða bringur og þeir al-hörðustu voru með fleiri en eitt.
Ferðir til sólarlanda urðu vinsælar upp úr 1970 og komu þá menn roggnir heim og sólbrenndir, eftir að hafa flatmagað á ströndum. Ferðatöskurnar stútfullar af útlensku gotteríi, sígarettukartonum og minjagripum til að skreyta heimilið. Til dæmis öskubakka með nafni strandarinna eða plastasna sem var stillt upp á stofuborð og ef togað var í skottið, skeit asninn sígarettu. Það þótti flott að geta boðið upp á rettu úr asnarassi. Margir þessara ferðalanga tóku líka annað með sér heim, tattú.
Í gamla daga voru húðflúr vinsæl meðal tiltekinna hópa í Evrópu. Annars vegar meðal aðalsmanna, en ýmsir konungar og keisarar létu tattúvera sig, og hins vegar meðal vændiskvenna og glæpamanna. Þessi síðari hópur virðist hafa haft mun meiri áhrif á þá ímynd sem húðflúr fengu í huga evrópskrar millistéttar. Á okkar tímum eru tattú afar vinsæl hjá tónlistarmönnum, leikurum og jafnvel íþróttafólki og en tilgangur myndanna og merkingin sem fólk leggur í þær er oft mismunandi.
Pólýnesíumaður lætur húðflúr á líkama sinn til að loka honum og mynda vörn gegn hættulegum öflum en nasistar í Þýskalandi skráðu númer á handleggi Gyðinga og annarra fanga í útrýmingarbúðum.
David Beckham
Fyrir nokkrum árum starfaði ég hjá Gucci og var David Beckham fastur kúnni. Hann mætti einn daginn með Victoriu og Brooklyn ásamt ljósmyndara sem fylgdi þeim eftir en tilgangurinn var að gefa út bók um Beckham. Þar sem Gucci algengur viðkomustaður þeirra hjóna var ljósmyndarinn mættur til að mynda þau við innkaupin en þar sem myndatökur voru bannaðar hafði verið fengið leyfi fyrir ljósmyndatökunni. Við vorum tvö sem vorum látin vita af fyrirhugaðri heimsókn þeirra og klár með fatnaðinn og kampavín tókum við hress á móti fótboltakappanum og frúnni og ekkert annað fyrir Beckham en að fara í klefann og byrja að máta.
Beckham fer kátur inn í mátunarklefann -en stekkur allt í einu út úr klefanum á boxerbuxunum einum fata, bendir á bakið og spyr glaður: “Do you like my new tattoo“? fyrir ofan Brooklyn-nafnið en það er frumburður þeirra hjóna. Þar var einnig stór mynd af manni sem laut höfði með útbreidda vængi, svolítið eins og Jesú á krossinum: Þetta er verndarengill, sagði Beckham stoltur svona til útskýringar á nýjasta listaverkinu. Jú, þetta er hið fínasta tattú svaraði ég brosandi eftir að hafa skoðað húðflúrið vel og vandlega.
Síðan hefur Beckham verið óstöðvandi í húðflúrin. Eftir fæðingu Romeo og Cruz sona hans hafa nöfn þeirra bæst við fyrir ofan og neðan verndarengilinn. Victoria hefur fengið nafn sitt ritað á hendi Beckhams á hindi (þótti minna hallærislegt en að setja nafn hennar með enskum stöfum,) rómverskar tölur, kínversk og hebresk letur skreyta einnig líkama hans og þá hefur Jesú einnig bæst við og Beckham er ekki hættur.
Frú Beckham hefur einnig fengið húðflúrs-bakteríuna og verið dugleg við að fá sér tattú. Til dæmis ljóð á latínu, rómverskar tölur, stjörnur á bakið og hún hefur einnig heiðrað mann sinn með húðflúri sem mig hefur lengi langað í, en ekki gert enn, það eru stafirnir DB á hendi, einfalt og smart.
Eitt er víst að velja húðflúr er vandasamt verk og svo þarf að hafa í huga að setja tattú ekki á stað sem kemur til með að teygjast. Til dæmis ef maður fitnar eða eykur vöðvamassa – en ef mann langar í tattú þá er bara að kýla á það!!
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.