Ég veit ekki hvort það er aldurinn en mér finnst alveg ofboðslega gaman að spá og spekulera í stíl fólks á heimilum og þá hef ég sérstaklega gaman af stíl unga fólksins.
Reyndar var mér boðið í kaffi hjá yndislegri konu á Dalvík í sumar sem ég var að skutla heim eftir fermingarveislu, en frúin er komin á elliheimili og hús hennar er notað sem sumarhús fyrir fjölskylduna þegar þau koma í heimsókn.
Hún veit af áhuga mínum á hönnun og heimilum og vildi endilega bjóða mér í skoðunarferð um hýbíli sín fyrst við ættum leið framhjá.
Húsið var heimur hennar frá því um 1940 til 2008. Þar ól hún fjölskyldu sína og elskaði sinn mann þar til hann féll frá en þá flutti hún inn á fyrrnefnt elliheimili og dansar þar nú gömlu dansana við flotta eldri menn, spilar brids fer í hárgreiðslu og drekkur sérrí með öðrum skemmtilegum dömum.
Heimilið var meiriháttar spes og smá nostalgía.
Hún var með veggfóðraða veggi um allt hús í fögrum litum, baðherbergið var lítið með retró bláum veggflísum og veggfóður var þar líka – mjög 60’s-70’s.
Stofan ruglaði mig í rýminu. Hún var mjög 80’s en samt ekki. Húsgögnin voru 80’s en svo var það veggfóðrið….og ljósakrónurnar í 50’s stíl.
Eldhúsið var með upprunalega innréttingu en samt blanda af 40’s-60’s-80’s því af og til var eldhúsið jú tekið í gegn.
Mér fannst mjög skemmtilegt að detta inn í þetta hús. Svo skemmtilega flott-ljótt að ég tók andköf af hrifningu -Sá fyrir mér að gaman væri að taka tískuljósmyndir með veggfóðrið og sjúklega flottan fagurgrænklæddan íslenskan ruggustól úr tekki í bakgrunn og myndir af beljum á bakveggnum.
En snúum okkur til erlendra landa og að honum Selby hérna. Hann er flottur bloggari sem ég hef fylgst með í nokkurn tíma en Selby fer um heiminn og tekur myndir af flottu fólki á heimilum þess og persónulegum hlutum.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.