Þetta var hræðilegt slys. Það gerðist bara á einu sekúndubroti. Hún hefði ekki getað komið í veg fyrir það. Eða hvað? Slysið umturnar lífi Jennu Gray og hún reynir að flýja það með því að flytja i afskekkt þorp i Wales en yfir henni grúfir óttinn og sorgin, endalausar martraðir og minningar um það sem gerðist þetta nóvembersíðdegi – og allt það hræðilega sem gerðist áður en slysið átti sér stað.
Sirka svona hljóðar lýsingin á söguþræðinum í Mín sök eftir fyrrum lögreglunkonuna Clare Mackintosh, en hann er með þeim ófyrirsjáanlegustu sem ég hef lesið. Clare Mackintosh starfaði í bresku lögreglunni í tólf ár og rannsakaði þar allskonar glæpamál. Það er auðvelt að álykta að þessi reynsla hafi nýst henni gríðarlega vel þegar hún skrifaði þessa fyrstu skáldsögu sína því bókin skaust upp metsölulista, seldist í milljónum eintaka og hlaut margskonar verðlaun.
Í upphafi fannst mér bókin alveg skelfilega langdregin og þreytandi. Söguhetjan flytur sem fyrr segir í lítið þorp í Wales, gengur í fjörunni, teiknar í sandinn, tekur ljósmyndir og kynnist þorpsbúum á meðan hún reynir að vinna sig upp úr sorg og því sem virðist, botnlausu þunglyndi. Síðu eftir síðu virkaði sagan sem ægileg klisja og þá sér í lagi þegar söguhetjan fær augastað á dýralækninum í þorpinu, sem hún kynnist auðvitað í fjörunni þar sem hann er að labba með hundinn sinn.
Þegar bókin var sirka hálfnuð tók sagan 90 gráðu snúning og varð svo hrikalega spennandi að ég gat með herkjum hætt að lesa. Ekki eins og það sé eitthvað svakalega frumlegt en viðbrigðin urðu bara svo mikil. Svart og hvítt.
Höfundurinn færir lesandann fyrirvaralaust úr hugarheimi hinnar sorgmæddu Jennu, yfir í höfuðið á grimmum ofbeldismanni og siðblindingja og allt í einu fjallar sagan um ofbeldi í samböndum, miskunarlausa kúgun eiginmanns á konu sinni og hvernig hann fer að því að brjóta hana niður, smátt og smátt þar til hún á varla nokkra sjálfsmynd eftir. Inn í þetta fléttast svo rannsóknin á slysinu og líf lögregluþjónanna sem að henni vinna og höfundurinn spilar á víxl með frásögn í fyrstu, annari og þriðju persónu sem telst nokkuð vel gert.
Þó fjögur ár séu síðan Mín sök kom út finnst mér full ástæða til að mæla með henni því hún er allt í senn áhugaverð og spennandi og skilur margt eftir sig. Persónusköpunin er sérlega sannfærandi og sjúkur hugarheimur ofbeldismannsins er svo vel skapaður að það skilur eftir sig varanleg áhrif í kolli lesandans.
Og svo virðist sem rithöfundurinn Clair hafi ekki aðeins sótt reynsluna til starfsins heldur segir hún hér í viðtali að hún hafi hætt í löggunni þegar hún gerði sér grein fyrir því að ofbeldismenn væru langt komnir með að leggja hennar eigið fjölskyldulíf í rúst. Hún er þessum málum semsagt vel kunnug sem skilaði sér í þessari metsölubók.
Notendur Goodreads gefa henni fjórar og hálfa stjörnu og sjálf splæsi ég í það sama.
[usr 4.5]
Þið getið keypt hana hjá vefverslun Forlagsins, bæði sem rafbók og í kilju og svo er hægt að kaupa hana á Kindilinn en enski titillinn á bókinni er I let you go.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.