Uppistand. Það er fátt skemmtilegra í heiminum en að fara á gott uppistand og blessunarlega er starfandi hérlendis lítill hópur vel gefinna ungra manna sem kalla sig Mið-Ísland.
Þeir eru með skemmtun á fimmtudags, föstudags og laugardagskvöldum í Þjóðleikhúskjallaranum og ég get lofað þér því að þetta er skemmtun sem stendur undir nafni. Drengirnir eru svo klárir og sniðugir og skemmtilegir að allur salurinn hossast og hristist meðan hláturtár leka niður vanga.
Mér fannst þeir allir jafn sniðugir, enginn einn sem toppaði hinn en þeir eru mis- súrir ef svo má að orði komast. Björn Bragi finnst mér mjög skemmtilegur, gott ef það var ekki hann sem átti brandarann um manninn sem spurði vin sinn hvað dóttir hans væri gömul. Maðurinn svarar – Hún er einsoghálfs… og hinn – Nei, nei… hún er ekkert eins og háls. Hún er bara venjuleg. Láttu ekki svona…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=1TRBjLO9QMQ[/youtube]
Gamanið er að mestu góðlátlegt en hrikalega fyndið. Þeir gera auðvitað mikið grín að sjálfum sér eins og grínista er siður og þetta höfðar til allra Íslendinga sem eru meðvitaðir um umhverfi sitt. Semsagt til allra sem eru bara eitthvað smá að fylgjast með. En auðvitað á hneysklunargjarnt fólk bara að gera eitthvað annað. Grín á aldrei að vera PC.
Miðaverðið er spaug miðað við hvað þetta er skemmtilegt og ég SKORA Á ÞIG að skella þér Þjóðleikhúskjallarann en mæli samt ekki með því að fara með syni eða dóttur á unglingsaldri af því það er ekkert gaman að flissa yfir dónabröndurum með barninu sínu.
Það bara gengur ekki nógu vel og það er meira að segja vandræðalegt að sitja við hliðina á feðginum eða mæðgum meðan verið er að gera vafasamt grín, jafnvel þó þú þekkir þau ekki neitt. Enda eru 98% þjóðarinnar meðvirk.
Skelltu þér með jafnöldrum – hér færðu miða. Hláturinn lengir lífið og þú færð jafnvel sixpack.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.