Hvað myndirðu spara mikla peninga á því að eiga sama bílinn í 63 ár og skipta samviskusamlega sjálf um olíu á honum á 4000 kílómetra fresti?
Svar: Helling!
Þetta hefur Margrét Dunning, 102 ára bandaríkjakona gert árum saman en hún komst í fréttir eftir að hafa slegið í gegn á bílasýningu í Ohio þar sem hún mætti með kaggann sinn: 1930 módel af Packard 740 Roadster, keyptan árið 1949. Bíllinn er semsagt 82 ára og hún sjálf 102 ára!
“Ég elska gamla bíla,” sagði hún í viðtali við bæjarblað í Akron Ohio. “Ég elska líka lyktina af bensíni… hún rennur um blóðið í mér”.
Margrét þessi ólst upp á bóndabæ vestur af Detroit, ekki langt frá þeim slóðum þar sem fjölskylda bílarisans Henry Ford átti heima. Hún lærði að keyra á bænum þegar hún var átta ára, klessti inn í hlöðu þegar hún var tíu ára og fékk ökuréttindi tólf ára. Daman er semsagt búin að vera keyrandi í 90 ár.
Hún keyrir enn gamla Packardinn sinn en stýrið er víst orðið harla stórt svo flesta daga notar hún kadilakkinn sinn, árgerð 2003.
“Ég hef lifað svo áhugaverðu lífi í þessum heimi,” segir hún. “Á hverju ári sé ég meiri fegurð í því sem ég virði fyrir mér.”
Yndisleg fyrirmynd!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.