Hulda Pjetursdóttir viðskiptafræðingur er meðal þeirra kvenna sem stunda kraftlyftingar af kappi.
Lyftingarnar hefur hún stundað frá því í febrúar 2011 en það voru vinkonur hennar sem drógu hana með sér af stað í World Class á Seltjarnarnesi þar sem hinn margrómaði einkaþjálfari Ingimundur lætur stelpurnar taka á því.
Hulda segir íþróttina hafa komið sér verulega á óvart enda reiknaði hún með að það væri bara svona “Olgur” sem stunda lyftingar. Nú “rífur hún í stöngina” að meðaltali þrisvar í viku en æfir þrekið hina dagana.
1. Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Borða hollan og góðan mat, passa að sofa vel og hreyfa mig mikið.
2. Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Þrisvar í viku klukkutíma í senn æfi ég kraftlyftingar hjá þjálfara og einu sinni eða tvisvar í viku æfi ég þolið. Svo fer ég í jóga til að kjarna mig.
Þá er líka með góðri samkvisku hægt að fá sér rauðvín og pizzu og borða upp úr einum Hraunkassa þegar þannig stendur á.
3. Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Mér finnst auðvelt að sleppa gosi og allri unninni matvöru bæði kjötvöru og pakka- og dósamat. Mér finnst gott að fá mér kaffi á morgnana en get líka verið án þess ef ég ætlaði mér það.
Held að það sé ekkert sem ég gæti ekki gefið upp á bátinn en það er margt sem mig langar ekki til að hætta að fá mér eins og t.d. súkkulaði.
4. Hvað færðu þér í morgunmat?
Ég æfi yfirleitt á fastandi maga en fæ mér svo tvö egg og lífrænt epli eftir æfingu og þá daga sem ég æfi ekki og gott kaffi.
5. En á milli mála?
Lífrænt epli og hnetusmjör eða harðsoðið egg. Fæ mér banana með hnetusmjöri þegar mér finnst ég eiga eitthvað verulega gott skilið.
6. Brilliant bleikja með steinselju og sítrónum
Við fengum uppskrift hjá Huldu – þessi er að hætti Paleo fæðunnar sem Hulda aðhyllist líkt og svo margir fleiri sem stunda lyftingar.
Bleikjuflök í sett í eldfast mót. Smá ólífuolíu, salti og pipar stráð yfir. Flökin þakin með steinselju og sítrónusneiðum og álpappír settur yfir mótið. Hitað í ofni við 180 gráður í ca 10-15 mín.
Borið fram með salati með spínati, kirsuberjatómötum og avocado með vinagretti dressingu, gufusoðnum lífrænum gulrótum og blómkáli, sítrónubátum og smjöri.
Einfalt, hollt og gott!
7. Skiptir máli að vera töff í ræktinni?
Það skiptir máli að vera í þægilegum íþróttafötum sem mega alveg vera litrík og töff í leiðinni. Nota mest föt frá Lululemon eða úr Adidaslínu Stellu McCartney.
8. Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Ingimundur Björgvinsson þjálfarinn minn er sá heilsusamlegasti sem ég þekki og góð fyrirmynd. Hann fær mann til að leggja extra á sig til að ná árangri og hann hefur náð að búa til skemmtilega stemningu í kringum lyftingarnar. Almennt finnst mér fólk í kringum mig hugsa vel um heilsuna og vera duglegt að æfa og hreyfa sig og borða hollan mat.
9. Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Lyftingar og prótein úr hreinum og/eða lífrænum mat. Ég reyni að borða fjölbreyttan, hreinan og hollan mat. Ósjálfrátt fer maður að spá í uppruna matarins út frá því og þá verður lífrænt oft fyrir valinu ef það er í boði.
10. Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Já, ég ætla að koma mér aftur í gott form á næstu vikum eftir að hafa verið í fríi frá lyftingastönginni í allt of langan tíma. Ég hef keppt á tveimur Íslandsmeistaramótum og stefni á að gera það aftur á næsta ári. Það gefur mikla vellíðan að vera í góðu formi og lifa heilbrigðu líferni dags daglega. Þá er líka með góðri samkvisku hægt að fá sér rauðvín og pizzu og borða upp úr einum Hraunkassa þegar þannig stendur á.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.