Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir fólki sem talar við börn og unglinga. Óneitanlega komast fæstir hjá því að þurfa að yrða á barn einhvers staðar á lífsleiðinni, það er þó ekki það sem ég á við. Það sem ég á við er að tala við barn eins og það skipti verulegu máli. Börn og unglingar skipta nefnilega verulegu máli í heiminum.
Uppáhalds stjórnmálamaðurinn minn, þegar ég var barn, var Guðrún Helgadóttir. Ég get fullvissað ykkur um að það var ekki vegna þess að ég hefði snefil áhuga eða vit á stjórnmálum. Það var bara vegna þess að hún var barnabókahöfundur og virtist skilja börn.
Þær vinkonur mömmu, sem voru í uppáhaldi hjá mér, voru þær sem töluðu ekki bara við mömmu mína heldur líka við mig. Sögðu við mig hvað ég hefði stækkað og máttu vera að því að hlusta á hvað mér lægi á hjarta. Það þurfti ekki meira en “dass” af tilfinningagreind frá þeim og ég var alsæl. Gat séð af mömmu í smá spjall, reyndar ekki nema fimm mínútur en hei! Ég var bara ósköp venjulegt barn.
Þeir sem voru ekki í uppáhaldi voru þeir sem voru minna þroskaðir en börn. Þeir sem komu fram við mig eins og annars flokks bara af þeim sökum að ég var ekki fullorðin. Þeir sem settu upp svipi og fannst ég vera fyrir, beindu mér að færa mig, afgreiddu mig jafnvel seinast, þó ég hefði verið númer tvö í röðinni. Svona mikið fullorðins vil ég ekki verða.
Ég hef ekki ennþá hitt hinn sjálfumglaðan ungling, hvað þá hið sjálfumglaða barn. Þeir unglingar sem kunna að virðast sjálfumglaðir eru oftar en ekki þeir sem þurfa mest á sjálfstyrkingu að halda.
Það er okkar, sem fullorðin erum, að standa með og hvetja börn og unglinga til dáða, líka þau sem við eigum ekkert í. Látum þau finna að þau skipta máli.
Einn daginn verðum við gömul og hrum og búið verður að taka af okkur bílprófið. Þá verða það börn og unglingar nútímans sem koma til með að annast okkur og stjórna fyrirtækinu. Ég er nokkuð viss um að þá komi sér betur að hafa verið “Brynka næs” en “fúla Skúla”.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come