
Nú er tími sumarleyfa, sólarlandaferða, sólbaða og útivistar en vonandi eigum við eftir að njóta margra góðviðrisdaga á þessu sumri.
Í tilefni af grænkandi gróðri og ögn meiri sól er ekki úr vegi að huga að því að blessuð sólin hefur einnig smá skuggahliðar.
Við heyrðum í Þórdísi Ingadóttur snyrtifræðingi á Dekurhorninu og spurðum hana aðeins út í hvað hægt væri að gera til að forðast skaðlegar afleiðingar sólarinnar á húðina en eins og flestar alvöru pjattrófur vita eru of tíð sólböð og sígarettureykingar það versta sem hægt er að gera húðinni.
Þórdís, eða Dísa á Dekurhorninu, hefur unnið sem snyrtifræðingur í mörg ár og veit eðlilega allt um málið enda sérhæfa snyrtifræðingar sig fyrst og fremst í meðferð húðarinnar.
„Sólin gefur frá sér útfjólubláa geisla sem skiptast í uv-a og uv-b geisla. Ef ekki er notuð sólarvörn geta geislarnir flýtt öldrun húðar, valdið frumubreytingum í húðinni sem geta orðið að sortuæxli og brennt húðina,“ útskýrir Þórdís.
„Til að auka líkurnar á því að húðin haldist heilbrigðari og rakameiri er um að gera að hugsa vel um hana. Það er til dæmis mjög gott að fara í rakagefandi andlitsmeðferð áður en haldið er til sólarlanda. Þegar komið er í sólina skal gæta þess vel að nota góða og mikla sólarvörn til að komast hjá því að húðin verði fyrir skemmdum.“

„Vörnin þarf að vera með SPF15 að lágmarki og það verður að gæta þess að bera á sig 30 mín fyrir sólböð. Í sólarvörnum eru efni sem mynda filmu á húðinni og hindra það að geislarnir nái að skaða hana. Algengur misskilningur er þegar fólk heldur að það fái ekki sólarbrúnku ef það notar sólarvörn, en sólarvörnin kemur ekki í veg fyrir að þú fáir brúnku heldur kemur í veg fyrir að þú brennir og verðir fyrir skaðlegum geislum sólar.“
Þórdís segir fólk oft misreikna sólina hér á Íslandi.
„Á Íslandi eru þessir sólargeislar jafn skaðlegir og á heitari stöðum. Þessvegna er einnig mikilvægt að nota gott dagkrem sem inniheldur sólarvörn. Förum varlega í sólinni en munum samt að njóta rétt þessari gulu þegar hún nú loksins lætur sjá sig!“
Þórdís nefnir einnig að gott sé að nota krem frá Gatineau sem heitir Before&After Sun ef fólk stefnir á sólarlöndin. Þá er byrjað að bera kremið á tveimur vikum áður er út er haldið, til þess að undirbúa húðina og gefa henni góðan raka fyrir sólina.
„Svo þarf að halda áfram að bera kremið á sig daglega eftir að búið er að vera í sólinni. Kremið græðir, gefur raka, örvar starfsemi litafruma og lætur brúnkuna endast lengur,“ segir húðsérfræðingurinn Þórdís, eða Dísa á Dekurhorninu að lokum.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.