Lili Choi er ef til vill best þekkt sem förðunarmeistari en hún býr og starfar í París þar sem hún vinnur fyrir öll helstu tískuhúsin. Lili Choi er kóreisk og á ekki langt að sækja hæfileikana en mamma hennar er flinkur skrautskrifari.
Lili Choi hefur nú einnig snúið sér að tattúlist en það má beinlínis kalla verkin hennar listaverk. Gullfalleg eru þau og prýða nú síður nýjasta franska Vogue. Eins og sjá má á myndum sækir Lili Choi áhrif til dísa og dýra, myndirnar eru fíngerðar og hreinlega æðislegar.
Tattúið er reyndar mjög áberandi í þessu nýjasta hefti Vogue. Glannalega stór og voldug. Persónulega finnst mér fallegt ef tattú er ekki of áberandi, heldur sveipað dulúð og kemur á óvart þeim sem við hleypum nálægt okkur. Á það jafnt við um dömur og herra. Þannig er fallegt að sjá tattú sem þekur allt bakið, enda er það yfirleitt svo að bakið er hulið öðrum.
Fyrir þær sem vilja ganga alla leið og fá sér tattú frá Lili Choi þá er hún með stofu í París: www.lilichoi.com
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.