Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann og fiskinn ..
Hrúturinn 21. mars – 19. apríl
Hrúturinn hefur alla burði til að verða fyrirtaks skurðlæknir. Hann er snar í snúningum og óhræddur við að takast á við krefjandi verkefni.
Tepruskapur er hugtak sem hann þekkir ekki og hann kippir sér ekki upp við blóð eða aðra líkamsvessa. Hrúturinn getur líka vel unnið við aðstæður sem að öðrum þykja óhugsandi.
Dæmi: Hrúturinn er staddur á frystitogara í -20 stiga gaddi og brjáluðu veðri. Sjómaður glatar fingri ofan í fisk. Hrúturinn gerir sér lítið fyrir, vippar sér upp á þilfar, sker upp fiskinn og saumar fingurinn á með gamalli nál og tannþræði. Ekkert væl.
Læknir í hrútsmerkinu mun sennilega ekki bindast sjúklingum sínum neitt sérstaklega mikið. Hann lítur frekar á þá sem verkefni sem þarf að leysa og eftir að það hefur verið leyst (á mjög fljótlegan máta) tekur við næsta verkefni.
Engu skiptir þó að verkefnin séu verulega snúin og myndu sennilega hafa áhrif á sálarlíf annarra lækna, hrúturinn sér engan tilgang í að velta sér upp úr og greina það sem er búið og gert. Hann heldur bara ótrauður áfram, áhyggjulaus og fullur eldmóðs að takast á við eitthvað nýtt og krefjandi.
Frægir hrútar: Marlon Brando, Alec Baldwin og Victoria Beckham.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.