Það skiptir sköpum að hafa réttan þrýsting á reiðhjólinu þínu og þar sem sumarið er framundan og átakið Hjólað í vinnuna hefst 9. maí næstkomandi þá er rétti tíminn að gera sér ferð út á næstu bensínstöð og pumpa í dekkin.
Á flest öllum bensínstöðum má finna sjálfvirkar loftdælur sem auðvelt er að nota en áður en þú byrjar að pumpa þarftu að kíkja á dekkið á hjólinu til að athuga hvaða þrýsting dælan á að vera stillt á.
Það sem þú leitar eftir á hliðinni á dekkinu er tala á ákveðnu bili og stendur mælieiningin PSI (Pounds per square inch) fyrir aftan töluna en það sem kemur mörgum á óvart er að bíldekk þurfa minni þrýsting en reiðhjóladekk. Til dæmis nota ég 60-80PSI á hjólinu mínu en á bílnum okkar er 28PSI.
Það sem gerist með því að nota réttan þrýsting á dekkjunum er að mun auðveldara er að hjóla, þú ferð hraðar og slit á dekkjunum er minna.