Í fyrradag fór ég út að hlaupa eftir vinnu eins og svo oft á mánudögum nema í gær var brjálað rok og grenjandi rigning. Þar sem klukkan að ganga sex var einnig komið töluvert myrkur og þar af leiðandi átti ég erfitt með að greina hvað var fyrir framan mig.
Ég var ekki sú eina sem lét veðrið ekki stoppa sig í að fara út og hitti ég hlaupandi, gangandi og hjólandi fólk í tugum talið en ég hleyp í Laugardalnum sem er einstaklega vinsæll útivistarstaður. Það sem ég aftur á móti varð vör við er að klæðnaður hjá fólki ásamt lýsing á hjólum var eitthvað sem mætti klárlega bæta.
Tveir drengir komu hjólandi á móti mér, báðir í svörtum klæðnaði algjörlega ljóslausir og munaði litlu að ég hlypi beint í fangið á þeim. Fólk var úti að ganga með hundana sína og átti ég erfitt með að sjá litlu hundana og hvað þá tauminn sem tengdi eiganda og hund saman og munaði oft litlu að ég hlypi á tauminn hjá fólki og félli á jörðina.
Ég og kallinn minn fórum til USA nú á dögunum og þar sem hann hjólar í vinnuna ákvað hann að kaupa sér höfuðljós á hjálminn sinn eftir að við sáum hversu ótrúlega vel hjólreiðamenn lýstust upp og urðu sýnilegir á götunni með þess konar ljós. Ég tók einmitt eftir þessu í gær þegar ég var að hlaupa að fólkið sem bar endurskinsmerki, blikkandi ljós, var í vestum sást miklu fyrr en þeir sem voru svartklæddir og munaði það ótrúlega miklu. Ég mætti tveimur konum sem voru með hunda og var annar klæddur í endurskinsvesti sem ég tel að sé stórsniðugt að fjárfesta í, sérstaklega ef fólk er að ganga með hundana sína í umferð og þar sem fólk hjólar, gengur og hleypur.
Það einnig er gaman að segja frá því að fyrsta ferð kallsins í vinnuna með höfuðljósið á hjálminum var í gær (heppinn með veður finnst þér ekki ?). Þegar hann var búinn í vinnunni var komið hressilegt rok og grenjandi rigning og skellti hann hjálminum á hausinn á sér og fór út í umferðina. Þegar hann kom heim átti hann ekki orð fyrir því hvernig umhverfið breyttist gagnvart honum miðað við þegar hann var að hjóla án ljóssins.
Bílar stöðvuðu fyrir honum, þeir hægðu á sér og það var greinilegt að hann sást fyrr!
Hérna er ljósið sem kallinn keypti í USA, en þegar við komum heim fréttum við af honum Alberti Jakobssyni sem selur einmitt þessi ljós en það sem gerir þetta ljós frábært er að það lýsir fram, aftur og til hliðanna! Albert tekur við pöntunum og safnar saman og selur á sambærilegu verði í USA eingöngu með þeim tilgangi að láta hjólreiðamenn vera sýnilegri í umferðinni og vonandi fækka slysum en þetta er klárlega eitt af bestu ljósunum á markaðnum. Hægt er að senda Alberti póst á aj(hjá)hi.is ef þú hefur áhuga á að taka þátt í hóppöntun á svona ljósi.
Fyrir þá sem þykja ljósin kostnaðarsöm (tæp 20.000 kr.) vil ég benda á að kallinn lenti upp á slysó einn morguninn (datt á hjólinu) og borgaði 11.000 kr. fyrir komuna þangað en ég er sannfærð um að hann hefði ekki dottið ef hann hefði séð fram fyrir sig áður en hann settist upp á hjólið og rauk út í hálkuna þannig að ljósið er ekki dýrt miðað við öryggið sem það veitir manni.
Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta hérna er að vekja athygli á því að við verðum að sjást í umferðinni. Hjólreiða- og umferðarslys geta verið háalvarleg og við getum minnkað líkurnar á því að verða fyrir slysi með því að vera sýnileg og með öryggisbúnað.
Hér má svo sjá myndband um ljósið
[vimeo]http://vimeo.com/13816464[/vimeo]Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.