Þessa lífsreynslu skrifaði ég um á mitt eigið blogg í október. Slíka lukku vakti þessi saga að mér þykir nauðsynlegt að birta hana hérna líka. Núna eru allir að fara yfir um í jólastressi og almennri desembergeðveiki. Það verður að muna að hlæja líka og vera glaður – og hvað er svosem betra en að hlæja að óförum annarra?
Í gær keyrði ég heim frá Reykjavík. Þegar ég nálgaðist Vík í Mýrdal kallaði náttúran. Ég hefði svo sem mátt gera ráð fyrir því að blaðran yrði fljót að nálgast hættumörk eftir að hafa sturtað í mig fjórum kaffibollum og hálfum líter af Pepsi áður en ég lagði af stað úr borginni.
Jæja, ég kem á Vík og skottast inn í einhverja vegasjoppu til þess að kasta af mér vatni. Eða já, aðallega kaffi. Ég hef nú létt á mér á ófáum almenningsklósettum bæði innanlands og utan en ó boj – þetta klósett var svo virkilega illa lyktandi og óþrifalegt að ég íhugaði í alvöru að fara út í bíl og pissa í tóman take-away kaffibolla.
Ókei, þegar ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að mér tækist aldrei að pissa í bolla án þess að míga yfir hendurnar á mér í leiðinni lét ég til skarar skríða á klósettið. Frá Vík í Mýrdal eru rúmir 70 kílómetrar í næstu sjoppu og ég vissi að ég myndi ekki hafa það af. Ég fengi hland fyrir hjartað á leiðinni – svo mikil var þörfin.
Já. Þarna var ég sem sagt búin að gera allt klárt áður en ég myndi hefjast handa. Eftir myndatökuna sný ég mér síðan við, girði niðrum mig og ætla að fá mér sæti. En nei.
Mér tekst að stíga í einhverja bleytu á gólfinu (já sem var örugglega gamalt hland) og hálfpartinn missi fæturnar. Það kemur hreyfing á lofið og bölvaði pappírinn þeysist allur af setunni og á gólfið. Og ég ræð ekki neitt við neitt og dett ofan á klósettið. Eða eiginlega bara ofan í það. Með beran rassinn á alveg strípaða og örugglega banvæna klósettsetuna.
Nei sagan er ekki búin. Í tryllingslegri geðshræringu stekk ég upp af klósettinu og skalla hurðina fyrir framan mig. Á þessum tímapunkti var ég svo gott sem farin að grenja. Bæði af því að þarna stóð ég nánast rotuð með buxurnar á hælunum og út af því að ég var ekki með neitt sótthreinsandi á mér til þess að þrífa á mér bakhlutann. Sem nota bene var virkilega óþægilega rakur eftir flugferðina á klósettið. Oj bara.
Ég ætla ekki að segja meira. Og ekki hversu oft ég er búin að strjúka yfir aumingja rassinn á mér með sótthreinsandi klútum. Ekki pissa á Vík í Mýrdal og ekki láta geðveikina sem fylgir þessum mánuði ná tökum á þér.
Gefum okkur tíma til að njóta!
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.