Eftir súkkulaðiát páskahelgarinnar er öllum hollt að draga úr sykurneyslunni næstu daga og það getur reynst mörgum nammigrísum erfitt! Þá er tilvalið að búa sér til sælgæti sem er ekki bara ljúffengt heldur einnig bráðhollt.
Þá koma ,,hráfæðissúkkulaðismámúffurnar” sterkar inn. Einfaldar og æðislega góðar!
Á mínu heimili þarf ég að búa til tvöfaldan skammt í hvert sinn sem þær eru gerðar. Og með góðri samvisku ber maður þær á borð. Því uppistaðan í kökunum eru möndlur og döðlur en möndlur eru með því hollara sem við neytum. Í þeim er mikið magn andoxunarefna, E-vítamíns, prótíns og hollrar fitu. Ráðlagður dagskammtur af möndlum er handfylli á dag í heilsubótarskyni. Möndlur eru taldar góðar fyrir ónæmiskerfið, hjartað og blóðsykurinn.
Hentugt og fallegt er að setja kökurnar í lítil múffuform.
3 ½ dl möndlur
smá salt
ca. 10 döðlur
1 dl kakó
½ tsk. vanilludropar
smá vatn
Maukið möndlur og salt saman í matvinnsluvél. Bætið síðan döðlunum saman við þar til að hefur blandast vel saman. Síðan er kakóinu og vanilludropunum bætt út í og blandið hæfilega. Vætið aðeins í með vatni þar til áferðin er hæfilega mjúk.
Settið síðan í lítil múffuform og gerið ráð fyrir smá kremi ofan á. Allra best er að setja pappírsmúffuformin í álmúffubakkaform en alls ekki nauðsynlegt.
Kremið:
1 ½ dl agave síróp
1 ½ dl kakó
2 msk. kókosolía (látið renna heitt vatn á krukkuna til að bræða olíuna)
örlítið salt
Öllu hrært vel saman og smurt ofan á múffurnar. Skreytt með einu rifsberi eða smá jarðarberi. Geymt í kæli þar til rétt áður en borið fram.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.