Hönnun vikunnar er nýr liður á pjatt.is. Hér ætlum við að kynna eina hönnun í hverri viku, leyfa þér að lesa um uppruna hennar, hver hannaði og vinsældir hennar í gegnum árin.
Hönnun vikunnar er apinn eða the smiling monkey eins og hann er kallaður. Kay Bojesen hannaði hann árið 1951 á smíðaverkstæði sínu í Danmörku.
Kay Bojesen fæddist 15.ágúst 1886 í Kaupmannahöfn. Kay var þriðja barn foreldra sinna af fjórum börnum. Foreldrar hans voru þau Ernst Bojesen útgefandi og Valborg Ronsholdt listamaður.
Snemma fór Kay Bojesen að sýna áhuga sinn á sköpun. Ungur nam hann silfursmíði með Georg Jensen í Bredgade í Kaupmannahöfn. Árið 1910 ferðaðist hann til Þýskalands til að læra meira og síðar til Parísar til að vinna við silfursmíði.
Í kringum 1920 snerist áhugi hans að viðarmunum. Hann byrjaði að skera út leikföng úr við og einbeitti sér sérstaklega að því að hafa leikföngin mjúk viðkomu og meðfærileg.
Hugmynd hans var alls ekki að gera nákvæma eftirlíkingu af dýrunum sem hann skar út heldur skapa nýjan heim fyrir börnin. Leikföngin þurftu að vera einföld, endingargóð og hvetjandi fyrir börn.
Með þennan einfaldleika að fararbroddi skapaði Kay Bojesen heilan heim af viðarleikföngum sem náðu til barnanna og í raun okkar allra.
Hann stofnaði smíðaverkstæði sitt árið 1932 og afgreiddi konan hans vörur á meðan hann vann á bakvið og hannaði vörurnar. Kay Bojesen hannaði skálar, bakka, silfurmuni og viðarleikföng.
Kynslóð eftir kynslóð elskar viðarleikföngin hans Key Bojesen og í dag er hann einn stærsti hönnuður sem Danir hafa átt og er enn með þeim vinsælustu.
Árið 1951 fæddist Apinn. Apinn er brosandi og hamingjusamur, skorinn út úr tekkvið með blöndu af limba. Apinn er hugsanlega sá best þekkti úr smiðju Kay Bojesen en apinn hefur notið vinsælda frá upphafi og mun eflaust lifa áfram um ókomin ár, enda tímalaus og falleg hönnun.
Apinn kemur í þremur mismunandi stærðum, 20cm, 28cm og 60cm – Apinn er klassísk hönnun sem erfist á milli kynslóða ár eftir ár og hentar bæði fyrir ungt fólk sem eldra. Þannig er hann frábær gjöf sem stenst tímans tönn.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.