Sigrún Úlfarsdóttir, skartgripahönnuður, segist hafa orðið ‘húkkt’ á kristöllum í þau þrjú ár sem hún vann hjá Swarovski í París.
Fegurð kristallanna fangaði sköpunarkraft Sigrúnar og út frá þessu hannaði hún línu úr lituðum kristöllum, línu sem hún kennir við orkustöðvarnar í líkama mannsins eða ‘chackras’.
“Eitt af því sem mér finnst svo flott eru litirnir í gagnsæjum kristal og þegar ég fór að skoða Ayurveda-bækur datt mér í hug að kristallar væru nákvæmlega rétta efnið til að tjá orku mannsins sem er í ýmsum litum því litir hafa sína orku, maður þarf ekki annað en að hafa áhuga á innanhússhönnun til að komast að raun um það,” segir Sigrún en nafn línunnar, Bhakti-devine love, er fengið frá hjartastöðinni. “Hjartastöðin er eiginlega mikilvægasta stöðin. Hún er í miðjunni, á milli “jarðtengdu” stöðvanna og “andlegu”stöðvanna,” segir hönnuðurinn.
“Hún er aðsetur ástar og kærleika og er líka tenging okkar við kærleika guðs eða almættisins. Og þessi guðlega ást eða devine love, heitir bhakti á sanskrít og er sterkasta orkan í alheiminum. Svo ef maður tengir sig inn á þá orku, skapar það einingu með lífinu.”
Margar frægar konur hafa heillast af skartinu hennar Sigrúnar en á myndunum má m.a sjá Michelle Rodriguez sem lék stórt hlutverk í Avatar (konan í bláa kjólnum).
Hönnun Sigrúnar Úlfarsdóttur er m.a. fáanleg hjá Saga Shop og hjá Leonard.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.