Það er ótrúlega gaman að fylgjast með húsgagnahönnun í dag. Hugmyndirnar eru svo margar og flottar.
Til dæmis þessi þrjú felliborð. Þau eru nútímaleg, klassísk og falla algjörlega inn í það umhverfi sem þau eru sett inn í.
Hér áður fyrr voru felliborð til dæmis einungis hönnuð með veitingageirann í huga. Stóra og mikla veislusali þar sem nauðsynlegt er að hafa sem flest borð en þó hægt að geyma þau á frekar litlu rými. Svo útlit þeirra hentar yfirleitt ekki á nútímalegu heimili.
En þessi þrjú borð sem ég rakst á á netinu eru algjör snilld!
Það fyrsta hér að ofan er bæði felliborð OG stór mynd. Þannig að þegar þú ert ekki að nota borðið þá einfaldlega fellur þú það upp að veggnum og þá nýtur myndin sín í rammanum. Þetta borð er einnig til sem spegill í stað myndar. Ótrúlega nett og flott hönnun.
Eldhús felliborðið er líka ferlega sniðugt, en þarna geturðu fellt borðið niður meðfram eyjunni og þannig sparað pláss. Sum eldhús bjóða ekki uppá mikið pláss og þá er þetta snilldarlausn. Borðið fæst hjá Ivy design
Þriðja borðið er algjört æði. Sjáið fæturna á því! Falla saman í nettan kross svo hægt er að nota borðið sem gangaborð á meðan það er ekki í notkun í stærra matarboði, garðpartýi eða sem skrifborð. Flest fyrirtæki sem framleiða innréttingar ættu að geta sérsmíðað svona borð fyrir hvaða eyju sem er. Borðið er hannað af Steuart Padwick og hægt er að skoða það betur á heimasíðu hans.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.