Thelma Björk Jónsdóttir útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2005.
“Handverk og hefðir hafa alltaf verið mér mjög hugleikin, alveg frá því ég sat sem lítil stúlka í kjöltu ömmu minnar að leik með nál og tvinna. Þessi áhugi minn leiddi mig að École Lesage í París sem er skóli sem sérhæfir sig í Haute Couture handverki,” segir Thelma en Lesage í París er eitt fremsta og elsta fyrirtæki á sviði útsaums og sér fornfrægum tískuhúsum svo sem Chanel, Dior og Givency fyrir handgerðum útsaumsskreyttum efnum fyrir Haute Goture sýningarnar í París.
“Fyrir mér var þetta einstakt tækifæri til að stilla saman fágun hefðarinnar og forvitni sköpunarinnar. Hattar og höfuðföt hafa alltaf heillað mig sem og sú rómantík og dulúð sem þeim fylgir, að ég tali nú ekki um fallegt höfuðdjásn eða kórónu. Fátt gerir flík hátíðlegri eða tignarlegri en fallegt höfuðskraut. Það að finna skóla í París varð til þess að ég flutti þangað sumarið 2006 og dvaldi þar fram á sumar 2008. Að búa í París, mekka tískunnar jók mjög við reynslu mína auk þess sem ég kynntist fólki tengdu tískuheiminum”.
Átta ár að hanna höfuðskraut
“Áhugi minn á höfuðskarti leiddi til þess að árið 2005 stofnaði ég fyrirtækið Thelma design og byrjaði að hanna hatta og höfuðföt undir eigin merki. Markaður fyrir höfðuföt fannst mér ekki ýkja spennandi og hóf ég því framleiðslu á spöngum sem byggja á handsaumuðum rósettum. Ég lagði alla áherslu á að vanda vel til verka og að hver spöng væri einstök og vönduð. Eftir námið við Ecole Lesage gat ég enn frekar skerpt á þeim þáttum og bætt við handverkið”.
“Með höfuðskarti frá Thelmu design vil ég draga fram hið óvænta og dulúðuga. Höfuðskart á að vera krúnudjásn hverrar konu, punkturinn yfir i-ið sem gerir viðkomandi kleift að ganga inn á ný, ókönnuð svið sjálfsins þar sem feimnin hindrar ekki för. Höfuðskart frá Thelma design á að gefa konum aukinn styrk til að líta í spegil og ákveða hvert þær vilja fara, vera ögrandi og ákveðnar. Eða eins og ég segi stundum “ég mana þig”.
Ertu með eitthvað nýtt í gangi fyrir veturinn? Já, ég er að vinna að nýrri hatta og hanskalínu sem kemur fyrir þessi jólin.
Áttu uppáhalds mun eftir sjálfa þig? Mér þykir afar vænt um svörtu rósettuna sem var mitt fyrsta höfuðskart sem ég hannaði og seldi.
Áttu uppáhalds hönnuði, íslenska og erlenda? Ég á svo marga uppáhalds hönnuði sem ég lít upp til. Go with Jan, Skaparinn, Chanel, Vivienne Westwood og listinn er lengri.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Björt framtíð, lífið er að leiða mig þangað sem ég á að fara.
THELMA design er á Facebook og HÉR getur þú séð síðuna hennar. Flott stelpa hér á ferðinni sem lét drauma sína rætast.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.