Þórdís Jóhannsdóttir Wathne er 29 ára iðnaðarverkfræðingur og snillingurinn á bak við Spunadís.
Ég persónulega elska fallegu blómin hennar en þau fást m.a. í Kraum í Aðalstræti og hjá Sirku á Akureyri
“Ég hef ástríðu fyrir hönnun og frumkvöðlastarfi, lifi og hrærist í því frá morgni til kvölds og er með fjölmörg verkefni á prjónunum,” segir Þórdís sem byrjaði fyrir nokkrum árum að hanna undir vörumerkinu SPUNADÍS sem eru fylgihlutir fyrir konur á öllum aldri -hálsmen og kragar.
“Það má segja að athafnasemin sé mér í blóð borin enda voru margir forfeður mínir frumkvöðlar síns tíma. Til dæmis var langamma mín hattagerðarkona á Akureyri og rak verslun bæði þar og á Siglufirði. Hún ferðaðist á vorin með flugbáti frá Eyjafirði til Danmerkur til efniskaupa.”
Áttu þér uppáhald sem þú hannaðir sjálf?
“Þegar ég útskrifaðist með master í verkfræði þá hannaði ég og saumaði útskriftarkjólinn minn. Hann er í miklu uppáhaldi. Hann fær iðulega þann heiður að koma með mér í Eldborgarsal Hörpu þegar ég fer þangað á tónleika.”
En uppáhalds flíkin í skápnum heima?
“Akkúrat núna er það kjóll sem ég keypti á netinu fyrir stuttu. Ég er sérstaklega hrifin af fötum í sailor fíling, veit ekki hvaðan þessi óútskýranlegi áhugi minn á fatnaði með tilvísum í klæði sjómanna kemur, mögulega vegna þess að báðir afar mínir voru sjómenn!”
Er eitthvað að seljast meira hjá þér en annað?
“Já, Spunatían er lang vinsælust, en það eru hálsmen úr tíu blómum. Litir og áferð er hins vegar mjög fjölbreytt, satín, blúndur og flauel. Ég hef mjög mikið hannað og saumað eftir óskum hvers og eins og finnst sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til að lyfta upp brúðarkjólum með því að hanna fylgihluti á þá.”
Og framtíðin, Bjartsýn ?
“Ég er ekki bara bjartsýn á framtíðina heldur tek ég fagnandi á móti henni með því að njóta staðar og stundar á hverju augnabliki. Á þessu ári hef ég haft höfuðið í bleyti og endurhugsað framtíð Spunadísar. Ég er núna að undirbúa ferð til Bandaríkjanna í haust að markaðsetja þar í landi. Hef fengið bróður minn til liðs við mig með það að skoða möguleika á að stækka vörumerkið með nýja línu bæði fyrir dömur og herra – mjög spennandi.
Kíktu á meira af því sem Þórdís er að gera á Facebook síðunni hennar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.