Silja Kristjánsdóttir er textílkennari sem saumar í frítíma sínum fígúrur fyrir börn sem hún kallar Náttuglur.
Silja byrjaði að sauma fígúrurnar þegar allar vinkonur hennar gerðu lítið annað en að eignast börn og vantaði hana sængurgjafir en upp úr því hóf hún saumaskapinn og hefur hún saumað eins og vindurinn síðan.
Hugmyndin að nafninu kom þegar hún gerði verkefni með dóttur sinni Sölku, sem teiknaði mynd af náttuglu sem þær prentuðu á boli og samfellu og þar sem Silju fannst nafnið svo fallegt ákvað hún að halda áfram með hugmyndina og úr urðu þessar dásamlegu mjúku uglur.
Silja endurnýtir gömul föt, lök, tölur og fleira en uglurnar eru sérstaklega vandaðar og er hugað vel að öryggismálum og vaxar hún spottann sem notaður er til að festa tölurnar svo þær losni ekki af þegar litlir puttar og jafnvel fyrstu tennurnar fara að naga uglurnar til.
Þegar þú skoðar uglurnar sérðu að utan um þær eru borðar í allskonar litum en Silja segir að tilgangurinn með þeim sé að börnum finnist einstaklega róandi að strjúka borða og bönd áður en þau sofna og fannst henni tilvalið að bæta við borðunum til að gera uglurnar hlýlegri.
Náttuglurnar hennar Silju eru seldar í Hrím á Laugarveginum og er hún með facebook síðu en vonandi fáum við að sjá þær í fleiri búðum á næstunni.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.