Í Amsterdam er ótrúlega svalur kokteil bar sem heitir því einfalda og skemmtilega nafni Weekend
Barinn er kaffihús á daginn og kokteilbar á kvöldin en til að ná fram stemningu sem breytist á milli dags og kvölds ákváðu hönnuðirnir að nota lýsingu. Lýsingin er að mestu falin á bakvið panel í loftinu og svo eru skorin út form í panelinn sem gefur staðnum ákveðinn karakter.
Fyrir hádegi eru ljósin í barnum blá og græn en fá svo rauða og appelsínugula tóninn sem líður á kvöldið, svona eins og sólarlag. Eigendurnir leggja mikið upp úr frábærum matseðli en á morgnana er hægt að fá boost, grænmetisrétti og annað heilsufæði. Í hádeginu er alltaf eitthvað sérstakt gúrmet frá kokknum, eftir því hvaða skapi kokkurinn er þann daginn.
Svo í eftirrétt er hægt að fá sér ávexti og heita súkkulaðisósu, tja eða karamellusósu. Algjör snilld!
Á kvöldin þegar lýsingin deyfist og barinn fær á sig töffaralegri sjarma draga þjónarnir fram kokteilhæfileika sína og þá er víst meiriháttar að kíkja inn í einn kokteil með vinum. Staðurinn er vel útbúinn fallegum húsgögnum, stórum og þægilegum sófum og mjúkum þægindarstólum ásamt kósí arineldi.
Bar sem vert er að kíkja á ef maður á leið um hina afar sérstöku Amsterdam!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.