Þó hún Marlín Birna sé fædd og uppalin í Reykjavík þá á hún ættir sínar að rekja til Kerlingadals í Mýrdal, Vestfjarða, Súdan og Tyrklands.
Lengst af bjó hún á Óðinsgötunni og gekk í Austurbæjarskóla. Þaðan lá hennar leið í Menntaskólann við Hamrahlíð og Iðnskólann í Reykjavík en nú býr hún í London með manni og börnum sínum þeim Jóel Bjarna og Rósu Florence og stjúpsonunum Erunse og Imafi.
“Árið 1995 hélt ég til London og hóf nám við London College of Fashion, fyrst í 1.árs grunnnám og svo í BA. Mér líkaði svo vel hér í London að ég settist að og hef núna verið hérna í 18 ár,” segir Malín. “Í dag rek ég tvö fyrirtæki, annarsvegar Seafisk sem dreifir sjávarafurðum um allan heim aðallega frá Íslandi til Noregs og svo á ég og rek Marlin Birna þar sem ég hanna skart”.
…sá hlutur sem ég er mest stolt af er grænn pallíettukjóll sem ég saumaði fyrir Björku
Malín eignaðist sína fyrstu saumavél fimm ára gömul en hún var handsnúinn og kom frá Rússlandi.
“Ég stússaði mikið með hana og bjó til allskonar fínt á dúkkurnar mínar. Þar sem ég er alin upp hjá afa sem var smiður og ömmu sem var saumakona þá hafði ég alla tíð aðgang að allskonar tækjum og tólum, þar á meðal saumavélinni hennar ömmu eftir að ég varð eldri. Ég saumaði flestar flíkurnar mínar á unglingsárunum sem var mjög skrautlegt 80’s tímabil. Ég safnaði gjaldeyri áður en ég fór til london með því að sauma og selja föt og seldi þar á meðal í Frikka og dýrinu sem var við Laugaveg”.
“Samhliða og eftir námið í London hannaði ég og saumaði undir mínu merki Xilenz og einnig sérsaumaði fyrir einstaklinga. Ég saumaði á tímibili margar flottar flíkur fyrir Björku t.d fyrir Brit Awards þar sem hún tók á móti verðlaunum. Einnig saumaði ég fyrir Barchelorette myndbandið, Jules Holland sjónvarpsþátt og margt fleira. Ég vann hönnunarkeppni tvö ár í röð fyrir snyrtivörufyrirtækið Lancome þar sem ég hannaði einkennisfatalínu fyrir starfsfólk Lancome deildanna í verslunarmiðstöðvum um allt Bretland”.
Hvað ertu að hanna í dag?
“Ég fékk þá hugmynd í febrúar s.l að vinna með laxaleður og ákvað að byrja á ermahnöppum. Ég nota rhodium húðaðan base metal í hnappana svo það fellur ekki á þá og MB lógóið er grafið í fótinn. Þeir eru framleiddir í Bretlandi en laxaleðrið er unnið á Íslandi. Ermahnapparnir koma í 15 litum og eru margir af þeim skærir og skemmtilegir. Á teikniborðinu er ég einnig með þverslaufur, hálsmen, belti, töskur og ýmislegt fleira.”
Áttu uppáhalds mun sem þú gerðir sjálf?
“Já, sá hlutur sem ég er mest stolt af er grænn pallíettukjóll sem ég saumaði fyrir Björku Guðmundsdóttur. Ég braut svo margar nálar við að reyna að sauma í gegnum þykkar pallíetturnar að ég endaði með saumnál og saumaði hann mest allan í höndunum. Það tók mig nokkra daga að klára hann en útkoman varð óendanlega falleg”.
Uppáhalds hönnuðir, íslenskir og erlendir?
“Birna Karen er mikill snillingur, KronKron er amazing, Aftur eru með flottar flíkur og með góðan boðskap á bak við merkið. Jör er töff og ég hlakka til að sjá kvenlínuna frá honum. E-label er með margar flottar flíkur og ég dáist að Hörpu Einars a.k.a Ziska fyrir alla hennar list. Ég hef fylgst lengi með henni og hún er svo hæfileikarík í alla staði. Kría er svo eitt af mínu uppáhalds skarti. Margir erlendir hönnuðir eru að gera flotta hluti og það er svo sem enginn einn uppáhalds hjá mér. Það fer bara eftir því hvernig skapi ég er í og hvað er að gerast hverju sinni. Vivienne Westwood, Sonia Rykiel, Matthew Williamson og Roberto Cavalli eiga samt alltaf stað í hjarta mínu,” segir Marlín að lokum.
Á Íslandi eru ermahnapparnir hennar Marlín Birnu seldir í Aurum, Bláa Lóninu, Hilton hótel Reykjavík, Hótel Natura og Gestastofa Sútarans á Sauðárkróki.
Vefsíðuna hennar er hægt að nálgast HÉR. Facebook síðuna er hægt að nálgast HÉR. og einnig er hægt að senda henni tölvupóst info@marlinbirna.com
Ég hvet þig að skoða fallegu ermahnappana hennar Marlín Birnu og jafnvel kaupa par handa manninum þínum, eða sjálfri þér.
*af gefnu tilefni lætur Pjatt.is hér fylgja grein eftir Aðalstein Davíðsson cand. Mag um hvernig skuli beygja kvenmannsnafnið Björk.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.