Í desember 2011 var Chalet Brickell lúxus skíða “kofinn” opnaður og leigður til þeirra sem eiga til aura… og þá helst endalaust nóg af þeim!
Þarna er allt til alls og ekkert til sparað! Herbergin eru 7 og taka allt að 18 manns í gistingu. Húsið stendur á móti suðri svo sólin vermir það allan daginn. Falleg verönd með tilheyrandi húsgögnum til að slaka á með heitt kakó eftir skíðaferðir dagsins og njóta útsýnisins.
Innra rýmið er með viðarveggjum og eikar gólfefnum. Hurðarnar aftur á móti eru klæddar með leðri og eins hurðarkarmarnir. Þykk og falleg teppi prýða gólfin og gera herbergin hlýlegri. Bílskúrinn tengir saman sameiginlega rýmið og gistirýmið. Þarna eru bílar til sýnis fyrir bílasafnara og er bílskúrinn það stór að hægt er að koma stórum jeppum, kappakstursbílum og limósínum fyrir án þess að þröngt verði á þingi. Veggirnir sýna myndir af þekktum kappakstursköppum á borð Steve McQueen. Lýsingin er frábær og njóta myndirnar sín vel.
Innisundlaugin hefur útsýni yfir garðinn. Til að öðlast fullkominn frið eru sérhannaðar gardínur fyrir gluggunum sem hægt er að draga fyrir og þá er tilfinningin eins og þú sért staddur í sundlaug í Hollywood í kringum 1960. Stórir legubekkir með lúxus púðum og pullum.
Sérhannaður “næturklúbbur” er í húsinu ásamt fullkomnum bíósal, vilji gestir lyfta sér aðeins upp. Tæknilega hliðin er sú besta sem til er en í næturklúbbnum er sérhönnuð LED lýsing sem hönnuðir diskóteka sáu um að hanna, svo hægt er að dansa alla nóttina í sínum privat næturklúbbi og líða eins og þú sért staddur á skemmtistað í New York.
Svo er það rúsínan í pylsuendanum … Nuddherbergið! Þar er engu til sparað frekar en í hinum rýmunum. Nuddherbergið er sérhannað til að láta þreytuna líða úr sér og þar getur þú átt svona “me-time”.
Kristall, marmari, leður, gull, antíkviður og enn meiri lúxus en maður hélt að hægt væri að hugsa sér! Þvílíkur draumur!
________________________________________________________________________
Viltu meira? Finndu mig líka á facebook
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.