Kolbrún Ýr Gunnarsdóttir er fatahönnuður og textílkennari frá KHÍ en fatahönnun nam hún í IED í Barcelona.
Kolbrún hannar fatnað og fylgihluti og er að byrja á nýrri kápu og peysulínu.
“Uppáhalds munurinn minn er úr hálsmenalínunni minni A.T.T.A.T.2013 þar er ég að endurvinna skart og gerði handa mér hálsmen sem ég kalla 12 Hearts. Það finnst mér mjög fallegt enda minnir það mig á að elska sjálfa mig og allt og alla. Þetta er með því væmnasta sem ég hef gert og þess vegna þykir mér ennþá meira vænt um það og að ég hafi gert það fyrir mig því yfirleitt sel ég allt á endanum sem er ætlað mér en þetta ætla ég að halda fast í þó ég hafi fengið tilboð í það”.
Áttu uppáhalds hönnuði?
“Jáhá, svo marga. Uppáhalds íslenski hönnuðurinn minn er Bára Hólmgeirsdóttir í Aftur, mér finnst allt voða fallegt sem kemur þaðan. Ég er líka hrifin af því sem kemur frá Hildi Yeoman en á alltaf eftir að eignast eitthvað fallegt frá henni. Úff, og þessir erlendu eru svo ótal margir. Uppáhalds uppáhald er það sem kemur frá Bernhard Willhelm en það er fatnaður sem ég fell reglulega fyrir og Ann Demeulemeester er akkúrat á öndverðum meiði en sjúklega falleg og spennandi hönnun. Ef ég hugsa út fyrir minn fatasmekk þá finnst mér Balenciaga alltaf klassískt og fallegt og með fallegum smáatriðum á flíkunum. Victor og Rolf eru svo skemmtilega öðruvísi og síðasta lína John Galliano fannst mér æðislega falleg. Svo má auðvitað ekki gleyma meistara Alexander McQueen eða Sarah Burton sem hannar allt fyrir hans merki núna. Það er svo ótrúlega margir aðrir sem ég heillast af og fer það yfirleitt eftir hverri línu fyrir sig þannig að ég gæti haldið áfram endalaust”.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
“Framtíðin er ávallt björt. Ég var að flytja heim eftir þriggja ára dvöl í Barcelona og er svona að fóta mig hér. Ég er komin með vinnustofu og er að hanna á fullu og mun verða nýjasta berið í Kirsuberjatrénu á Vesturgötu 4. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt og gefandi í gangi hverju sinni og best að horfa ekkert of langt fram í tímann og vanda sig við að lifa í núinu”.
Heimasíðu Kolbrúnar finnur þú HÉR. Og vefverslunin hennar er HÉR. Einnig er hún á Facebook og HÉR finnur þú hana. Hönnun Kolbrúnar er einnig hægt að nálgast í Kirsuberjatrénu á Vesturgötu 4. Flott stelpa – Kíktu á fallegar myndir og njóttu~
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.