Hún heitir Inga Sól, hannar undir merkinu IngaSol design og er að stíga sín fyrstu skref sem hönnuður eftir að hafa útskrifast sem húsgagna- og vöruhönnuður í Danmörku.
“Ég fékk tækifæri á að sýna á Stockholm Furniture Fair 2012 þar sem skólinn minn valdi nokkur útskriftarverkefni að sýna og Askur, lokaverkefni mitt var eitt af þeim sem var valið. Hér heima var ég svo einn af sýnendum á samsýningu vöruhönnuða á Hönnunarmars 2013 í Hörpunni og nú er ég nýkomin heim af frábærri handverkshátíð sem var í Hrafnagili á Akureyri þar sem ég sýndi í fyrsta sinn undir eigin nafni, IngaSol design”.
Askur varð til dæmis til út af því að ég bjó í tæplega 30 m2 íbúð sem var öll undir súð og því var það ákveðin áskorun að hanna húsgagn sem myndi vera góður stóll, hirsla og borð
Hvernig hönnun höfðar aðallega til þín?
“Ég hef hingað til látið eigin þarfir og óskir ráða ferðinni. Askur varð til dæmis til út af því að ég bjó í tæplega 30 m2 íbúð sem var öll undir súð og því var það ákveðin áskorun að hanna húsgagn sem myndi vera góður stóll, hirsla og borð sem samt mátti ekki taka of mikið gólfpláss. En þar að auki hef ég verið að skoða óbeina lýsingu og hversu mikilvæg hún er okkur og úr því urðu ljósin mín. Ég vil að nytjahlutir séu einnig skreytandi og það er því leiðarljós mitt að hanna hluti sem gera gagn og eru einnig fegrandi”.
Hvaða efni ertu að nota í þína hönnun?
“Það sem ég hef mest unnið með er endurvinnsla og endurnýting, það er að nýta “ónýtt” efni á nýjan hátt. Til dæmis eru öll ljósin mín unnin úr mjólkurfernum sem ég hef unnið nýjan pappír úr en annars er ég mjög hrifin af viði og gamaldags handverki og hef reynt að nýta mér allan þann arf sem við eigum í smíði og gerð hluta. Ég er ávallt að leita að nýju og áhugaverðu efni og möguleikum að nýta þau”.
Áttu uppáhalds mun sem þú hefur hannað ?
“Stóllinn Askur er í algeru uppáhaldi, þarna kemur auðvitað inn í að hann var lokaverkefni mitt í hönnunarnáminu og það fór gífurleg orka og vinna í hann. Annars er erfitt að gera upp á milli því að ég er líka gífurlega stolt af ljósunum mínum og allri þeirri undirbúnings- og þróunarvinnu sem fór í að gera þau að því sem þau eru í dag. Eigum við ekki bara að segja að allt sé í uppáhaldi”.
Hvað finnst þér um íslenska hönnun í dag?
“Ég er afskaplega ánægð með hvað hönnun og handverk hafa fengið góðan byr seinustu ár og vona innilega að það sé ekkert að fara að breytast. Ég veit að fyrir minn hlut að þá hef ég fengið yndislegar móttökur og ég finn að fólk er meðvitað um að styðja og velja íslenskt, og endurunnið í þokkabót”.
Uppáhalds hönnuðir, íslenskir og erlendir?
“Úff.. þegar stórt er spurt! Hvað varðar íslenska hönnuði finnst mér að ég sé bara rétt að byrja að kynnast öllu því sem er til staðar sökum búsetu erlendis.
Þegar kemur að erlendum að þá verður valið ekki auðveldara. Ég hef ávallt heillast af Shaker-söfnuðinum og hvernig allt hefur tilgang og er þar að auki (að mínu mati) fallegt. Annars eru skandinavísku klassíkerarnir s.s. Arne Jacobssen, Hans Wegner og Finn Juhl alltaf sterkir. En ein besta lína þegar kemur að hönnun sem ég hef kemur frá Castiglione bræðrunum sem voru ítalskir og er “Start from scratch. Stick to common sense. Know your goals and means“.
Hvernig leggst framtíðin í þig?
“Framtíðin leggst bara mjög vel í mig. Ég er yfir mig ánægð með hversu góðar undirtektir hönnun mín hefur fengið og hlakka til að halda áfram að þróa hugmyndir mínar og sýna hversu falleg sjálfbærni og endurvinnsla getur verið. Heimasíðan mín er www.ingasoldesign.com en það er auðveldast að ná sambandi við mig í gegnum facebook síðuna mína sem er www.facebook.com/ingasoldesign”.
“Ég er í augnablikinu að selja vörur mínar beint frá mér en það er minnsta mál að taka pantanir og senda þær til viðtakanda, innan- og utanlands”.
Til að útskýra hönnunina sem er á myndunum þá er það hér að neðan:
Askur:
Fjölnota húsgagn. Ask er hægt að nota sem stól eða hliðarborð og er með innbyggða skúffu. Askur er úr birkikrossviði sem hægt að bæsa og lita eftir óskum. Eins er hægt að kaupa mismunandi áklæði fyrir sessuna. Stóllinn er handunnin hér á Íslandi.
Ljómandi/LjómaBlóm:
Ljós sem eru unnin úr mjólurfernum. Fernurnar eru handendurunnar og ég bý til nýjan pappír úr þeim sem svo er brotinn í mismunandi origami form. Hvert ljós og sería er handgert.
Rennimen:
Hálsmen sem eru unnin úr rennilásum. Hugmyndin byrjaði þegar ég fékk stóran poka af ónýtum rennilásum og fór að leika með þá. Úr varð hálsmen. Hvert hálsmen er handgert og því ekki hægt að lofa tveimur eins. Allt efni er ofnæmisprófað á sjálfri mér (mikill ofnæmis og nikkel gikkur).
Fréttamottur:
Upphaflega hugsað sem diskamottur en mér til mikillar ánægju vill fólk líka hengja þetta upp á veggi. Motturnar eru unnar úr dagblöðum sem eru ofin í vefstól til að mynda efni (textíl). Motturnar eru svo meðhöndlaðar þannig að þær muni ekki smita prentsvertu á undirlag en einnig er hægt að strjúka af þeim með rökum klút. Slitsterkt og gott efni.
Ofsalega skemmtileg hönnun og enn skemmtilegra að þetta er umhverfisvænt því hlutirnir eru endurunnir.
Hér er Facebook síða IngaSol Design
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.