Icelandic Fashion Design er vönduð ljósmyndabók eftir Charlie Strand en Charlie er breskur ljósmyndari og stílisti sem hefur undanfarið getið sér gott orð í tískuheiminum. Hann hefur sérstakan áhuga á íslenskri menningu og beinir hér sjónum sínum að tískuljósmyndun á þeim vettvangi.
Íslensk fatahönnun hefur síðustu ár vakið verðskuldaða athygli erlendis og þá sérstaklega hversu mikil flóra er í hönnuninni.
Í Icelandic Fashion Design tekur Charlie fyrir og ljósmyndar verk eftir tíu íslenska hönnuði, sem hver býr yfir sínum sérstöku höfundareinkennum. Bókin er mjög mikilvæg heimild um þennan iðnað sem fatahönnunin er á Íslandi og þá velgengni sem ekkert lát virðist vera á. Hvergi er til sparað til að gefa lesandanum rétta sýn á þann kraft sem býr að baki og Charlie nær óneitanlega að festa á filmu sterka mynd af íslenskri tísku eins og hún er í dag.
Bókin markar því tímamót í íslenskri fatahönnun og er ótvírætt listaverk út af fyrir sig sem mér finnst að allir unnendur hönnunar og tísku ættu að eiga, svo er þetta líka tilvalin gjöf til erlendra vina!
Hönnuðirnir í bókinni eru: Steinunn, Bóas, Eygló, Royal Extreme, ELM, Dead, Mundi, Vera Þórðardóttir, E-Label og Arna Sigrún
Það er Gudrun publishing sem gefur bókina út og mun hún vera fáanleg í öllum helstu bókabúðum á næstu dögum. Smá brot úr bókinni má sjá hér að neðan.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.