Þau Bjarki Sigurjónsson og Ásthildur Hannesdóttir eru fólkið á bak við Krot Design. Bjarki er að læra smiðinn og starfar einmitt sem slíkur á verkstæði uppi á Funahöfða. Ásthildur er menntaður stílisti og útskrifaðist í mars 2012.
Þau eiga eina dóttur saman hana Matthildi Mínervu og einn loðinn son, hundinn hann Erró.
Hönnun á vörum undir merkjum Krot Design hófst fyrir alvöru á síðasta ári þar sem Ásthildur var ólétt og í jólagjafa hugleiðingum. Bjarki tók það ekki í mál að hún færi kasólétt í fleiri ferðir í Kringluna og Smáralind í leit að einhverjum jólagjöfum þannig að hann ákvað að smíða bara eitthvað.
Við sváfum á þeirri hugmynd þar til okkur datt í hug að notast við útlínur landsins okkar, Íslands og heimaslóðirnar okkar Heimaey ( Vestmannaeyjar). Þegar bæði afmælis og jólagjafir fjölskyldumeðlima okkar voru svo farnar að prýða alla veggi hingað og þangað þá fundum við fyrir miklum áhuga og pressu frá allskonar fólki um að koma upp vefsíðu svo hönnun okkar myndi ná til sem flestra.
Við ákváðum að láta undan þrýstingi með því að setja upp Facebook síðu fyrir rúmlega þremur mánuðum síðan og þar er enginn eftirsjá.
Nú er hönnun á vörum Krot Design orðin að áhugamáli okkar beggja sem við getum sinnt saman enda virkilega samrýnd. Það er bara eitthvað svo kósý og skemmtilegt að sitja saman og skera út, pússa, líma og mála á meðan við tölum um lífið og tilveruna.
Hvað eru þið aðalega að hanna?
Við sérhæfum okkur í að hanna allskonar nýtískulegt veggskraut, vínrekka, veggljós og fleira sem prýða skal heimilið. Við notumst mikið við útlínur Íslands og Heimaeyjar í hönnun okkar sem og útlínur dýra, trjáa, og reyndar bara öllu því sem hugurinn girnist.
Hvaða efni eru þið mest að nota?
Allt sem við gerum er handsmíðað. Bjarki notast við handfræsara við útskurðinn. Þau efni sem við notum eru mest krossviður og MDF. Svo filmuhúðum við og lökkum kanta en sumt er sprautulakkað.
Er eitthvað sem er vinsælla en annað?
Það sem er vinsælast eru Heimaeyjar, bæði með ljósi og kertapöllum. Enda ekki við öðru að búast þar sem eyjamenn eru einstaklega stoltir af sínu.
Eigið þið uppáhalds grip úr eigin hönnun?
Bjarki er lang stoltastur af vínrekkatréinu sínu og er ekki lengi að nefna það, spurður að þessari spurningu. Ásthildur á sér ekki endilega einhvern einn uppáhalds grip en það er freistandi að nefna Vestmannaeyja vínrekkann og Íslands krítartöfluna.
Hvar finnst ykkur um íslenska hönnun í dag svona almennt ?
Við erum sjúk í íslenska hönnun og höfum gaman að því að fylgjast með íslenskum hönnuðum. Hinsvegar finnst okkur dapurt og sorglegt hvað íslendingar eru gjarnir á að apa upp eftir öðrum í stað þess að nota ímyndunaraflið og sköpunargáfuna sem við flest eigum til. Okkur skortir allavega ekki hugmyndaflugið- erum með hausinn fullan af flottum hugmyndum sem komast í verk hverju sinni.
Takið þið við séróskum um pöntun?
Að sjálfsögðu er hægt að koma með séróskir. Við reynum eftir bestu getu að fara eftir óskum viðskiptavinarins því það er jú allt hægt að gera. Við elskum að takast á við nýja hluti og fá innblástur. Challenge er af hinu góða að okkar mati.
Eru þið bjartsýn á framtíðina?
Já, við erum mjög bjartsýn á framtíðina. Það er ekki hægt annað þegar maður er að gera svona bráð skemmtilega hluti, mikið hrós,hól og hvatning frá hinum og þessum og bara eintóm gleði og hamingja.
Það er eitthvað sem okkur langar til að smita út frá okkur og deila með öðrum. Og er það stór ástæða þess að við erum að þessu.
Við viljum líka nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa keypt, skoðað og líkað við síðuna okkar hjartanlega fyrir. Þetta er ómetanlegt og gefur okkur heldur betur hvatningarbúst til þess að halda áfram.
Eins og er erum við bara með “vefverslun” á Facebook þar sem allar pantanir fara fram í gegnum einkaskilaboð á síðunni okkar. Hver veit nema við færum út kvíarnar fljótlega og gerum eitthvað meira og stærra. Við vonum það, fylgist með okkur!
Hérna er linkur á Facebook síðuna þeirra Bjarka og Ásthildar. Það er svo rosalega margt fallegt að sjá þar. Ég held að Krot Design sé komið til að vera.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.