Fatahönnunar fyrirtækið As we grow var stofnað í September 2011 en það má segja að þetta hafi alltsaman byrjað með einni peysu sem fór í ferðalag um heiminn.
Þetta var ullarpeysa sem var prjónuð úr góðri ull, var falleg og endingargóð og skipti um eigendur eftir því sem börn uxu uppúr henni og ný tóku við.
Þessi peysa varð kveikjan af því að þrjár vinkonur ákváðu að stofna fatahönnunarfyrirtæki með barnaföt sem byggði á þessum sömu lögmálum. Þetta eru þær þær Gréta Hlöðversdóttir, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og María Th. Ólafsdóttir.
Gréta er framkvæmdastjórinn, Guðrún er prjónahönnuður frá Listaháskóla Íslands og María er fatahönnuður frá Parsons School of Design og starfar hún jafnframt sem aðalhönnuður Latabæjar.
Flíkurnar eru prjónaðar úr Alpacaull og fer framleiðslan fram í Perú. Alpaca er úlfalda/camel tegund sem býr í Andes fjöllunum og var afar hátt skrifuð af Inkunum sem hafa notað þessa ull frá fornu fari. Ullin er ofur þægileg og mjúk, stingur ekki og er alveg ofnæmis frí. Það sem hefur gerst frá því vinkonurnar fengu þessa hugmynd er lyginni líkast. Viðbrögðin hafa verið frábær. Salan hefur farið vel af stað og hafa þær fengið styrki til þess að kynna vörulínurnar erlendis. Fyrsta línan var kynnt í Kaupmannahöfn í febrúar 2012 og nýjasta línan í París núna í janúar.
Það er þó ekki bara á erlendu sýningnum sem varan hefur náð athygli seljenda og dreifingaraðila, heldur hafa bloggarar sem fylgjast með því besta sem gerist í hönnun verið duglegir að hafa upp á þeim og skrifa um fatalínurnar, nú síðast norskur bloggari sem er með um tuttugu þúsund fylgjendur og nær allt kaupglaðar mömmur sem hafa verið að skrifa stelpunum næstum því á hverjum degi og spyrja hvernig hægt sé að nálgast vörurna.
Einnig er gaman að segja frá því að vörulínan var valin runner up sem vörulína ársins 2013 hjá Reykjavík Grapevine.
Það má því með sanni segja að As we grow hafi því fengið frábærar viðtökur og fyrir áhugasama þá má geta þess að stelpurnar halda úti bloggi á vefsíðu fyrirtækisins: aswegrow.is en þar má sjá myndir af vörulínum fyrirtækisins og fylgjast með því sem er að gerast hjá þeim.
Að lokum er vert að benda hér á tvær slóðir þar sem erlendir ofurbloggarar hafa skrifað um As we grow:
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.