Rúmlega 21 milljón manna og kvenna í Bandaríkjunum hafa verið greind með einhverskonar tegund af þunglyndi. Það kemur því ekkert á óvart að stjörnurnar, sem virðast eiga ó svo fullkomið líf, geta líka orðið verulega þunglyndar.
Fólk furðar sig kannski á því hvernig fallega, ríka, dásamlega Hollywoodfólkið getur orðið þunglynt en þunglyndi fer ekki í manngreiningarálit. Það geta ALLIR orðið þunglyndir hvort sem er til lengri eða skemmri tíma, frægir og óþekktir, ríkir og fátækir.
Einhvernveginn virðist það ekki skipta neinu máli hvað fólk á mikið af peningum, hversu fallegt eða frægt það er, andlegir sjúkdómar fara ekki í manngreinaálit frekar en aðrir sjúkdómar. Þetta sést kannski best á því hversu mikið af frægum leikurum og tónlistarfólki hefur látist af völdum fíkniefnaneyslu – og fíkniefnaneyslan er þá þeirra leið til að reyna að díla við andlega erfiðleika.
Eftirfarandi eru sex frægar Hollywood stjörnur sem hafa talað opinskátt um erfiðleikana.
SHERYL CROW
…varð þunglynd í tvö ár eftir að hafa verið á tónleikaferðalagi með Michael Jackson á níunda áratugnum. Hún segist hafa glímt við sjúkdóminn frá því að hún var krakki. Stundum fór hún ekki einu sinni að heiman svo að vikum skipti en með hjálp samtalsmeðferðar og prózak hefur Sheryl tekist að lifa góðu lífi.
Russel Brand
…er bæði þunglyndur og bípólar. Hann hefur líka glímt við bulimíu, kynlífs, eiturlyfja og áfengisfíkn og sjálfssköðun. Hann leitaði sér aðstoðar eftir að umboðsmaðurinn hans þjarmaði að honum og er núna á góðu róli. Hann skrifar um þetta allt í bókinni My Booky Wook. Russel er líka á útopnu með online meðferðir og er á bólakafi í jóga. Hann á tvö börn, er giftur og örugglega bara í góðum málum blessaður.
Brooke Shields
…fékk fæðingaþunglyndi eftir að seinni dóttir hennar kom í heiminn. Hún hugleiddi að fyrirfara sér enda sá hún stanslaust fyrir sér að dóttir hennar myndi hendast upp í loftið og lenda á vegg eða verða fyrir öðrum hörmungum. Hún leitaði sér aðstoðar og þakkar fyrir að hafa gert það snemma. Í kjölfarið kom Brooke af stað umræðu um sjúkdóminn.
Owen Wilson
…er annar “trúður með tár á kinn”. Hann kom öllum virkilega á óvart þegar hann reyndi að fyrirfara sér árið 2007 enda manna hressastur, eða að minnsta kosti á yfirborðinu. Þetta gerði hann eftir að þau Kate Hudson hættu saman en er búin að ná sér á strik í dag. Owen er fíkill og hefur m.a. glímt við áfengis og eiturlyfjafíkn.
Drew Barrymore…
…er líka bipolar, eða geðhvarfasjúk, eins og Russel Brand. Hún misnotaði áfengi og eiturlyf og reyndi að fyrirfara sér. Drew fór líka í meðferð 14 ára. Um sjúkdóminn segist hún þrá að verða eins og hafið: “Með mjúkum straumum og svo kannski ein og ein alda stöku sinnum. Ég þrái jafnaðargeðið meira og meira frekar en að fara hátt upp og svo langt niður aftur.”
Jim Carrey…
…hefur greint frá því að grínið sem gerði hann heimsfrægan sé í raun bara “örvænting”. Hann hafi orðið þunglyndur sem unglingur þegar hann glímdi við mikil vandræði heimafyrir. Í dag reykir hann hvorki né drekkur og snertir ekki einu sinni kaffi hvað þá meira: “Ég tek þessu mjög alvarlega með áfengið og eiturlyfin. Lífið er of fallegt.”
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.