Á mínum yngri árum var ég áskrifandi af blöðum eins og Æskunni og hinu glæsta þýska tímariti Bravo, ásamt öðrum virtum prentmiðlum.
Þaðan fylgdist ég með afdrifum minna uppáhalds stjarna, las um þau (lestur var takmarkaður í Bravo, það skal viðurkennast enda arfaslök í þýsku), klippti út myndir og límdi inn á fataskápshurðina.
Það sem vakti mest áhuga minn var ástarlíf Hollywood-leikara og lifði ég mig mikið inn í þau mál, enda var minn stærsti draumur að eignast sjálf kærasta. Háleit markamið sem sagt. Fyrir mér táknuðu þessi pör fullkomna ást. Þegar það kom svo að því að ástin kulnaði á milli stjarnanna fann ég mikið til með þeim, felldi jafnvel tár í meðvirknis ástarsorginni á meðan ég reif niður myndirnar af þeim og tosaði kennaratyggjóið af til að geta límt upp myndir af næsta stjörnupari.
Hér eru nokkur skemmtileg Hollywoodpör sem einu sinni voru, en eru ei meir. Sum þeirra eru glæsileg og ber þá helst að nefna Johnny Depp og hans fyrverandi ástkonur Winonu Ryder og Kate Moss. Önnur pör eru dálítið skondin, eins og Madonna og Vanilla Ice eða Whoppi Goldberg og Ted Danson (úr Cheers).
Eitt eiga þessi pör þó öll sameiginlegt að hafa ekki náð að endast og hafa þau snúið sér að öðrum ástarsamböndum og ævintýrum.
Þess ber að nefna að tímaritið Bravo er enn í fullu fjöri og flytur unglingum um gjörvalla Evrópu fregnir af því þegar Justin Biber fær sér hrökkbrauð og gerir önnur undur og stórmerki. Það verða alltaf til unglingar…
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.