Ég hef unnið við afgreiðslu og þjónustustörf í rúmlega 10 ár eða síðan ég var 15 ára. Á þessum árum, þó það hafi verið mestan partinn framan af, hef ég verið kölluð drusla, rusl, tík og frekja af viðskiptavinum.
Þó að ég hafi mun oftar fengið hrós fyrir góða þjónustu eða gott viðmót þá rista fúkyrðin mun dýpra og ég man eftir hverju og einu skipti líkt og það hafi gerst í gær. Flest fólk sem ég hef unnið með hefur lent í einhverju svipuðu og margir hafa jafnvel lent í svo slæmum samskiptum við viðskiptavini að samskiptin enda með tárum.
SLÆMUR DAGUR?
Við sem vinnum við það að þjónusta fólk afsökum oft hegðun viðskiptavina með því að segja við okkur sjálf að viðskiptavinurinn sé að eiga slæman dag. En er það í raun og veru afsökun fyrir því að hreyta í ókunnugt (sem og kunnugt) fólk? Aldrei hef ég látið fúkyrði dynja yfir viðskiptavini þegar ég mæti í vinnuna eftir dauðsfall eða eftir að fá slæmar fréttir og ég efast um að viðskiptavinir myndu afsaka þannig framkomu.
HÖLDUM RÓ OKKAR
Við eigum öll slæma daga sama hvar við vinnum, og sama hvern við eigum viðskipti við, og það gerir ekki dag neins betri að æsa sig.
Við lendum öll einhvertíma í þjónustufólki sem okkur finnst að ætti að skilja okkur betur, þjónusta okkur á annann hátt og jafnvel að nota við okkur annan tón. En í flestum tilvikum ef við höldum ró okkar og útskýrum vel hvað við eigum við og hvað við viljum fá út úr viðskiptunum þá fer allt vel að lokum. Ef við erum svo enn ósátt virkar mun betur að hafa samband við stjórnendur viðkomandi fyrirtækis heldur en að æsa sig við starfsfólkið sem fer ekki með nokkur völd.
Það skiptir ekki máli hvort það er símasölumaður, þjónustufulltrúi, starfsmaður í verslun eða sjoppustarfsmaður, komdu faglega fram við þá sem þú ætlast til að komi faglega fram við þig.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.