Beiersdorf, fyrirtækið sem framleiðir m.a. Nivea kremið, varð 100 ára á síðasta ári og af því tilefni var nokkrum fjölmiðlakonum boðið að heimsækja höfuðstöðvarnar til að kynnast þessu sögulega fyrirtæki og framleiðslu þess.
Heimsóknin var sérlega fróðleg og skemmtileg enda ekki á hverjum degi sem manni gefst kostur á að heimsækja jafn stórt og frægt fyrirtæki og gamla góða NIVEA.
Hér áður fyrr voru yfirleitt tvær tegundir af kremum til í baðskápum landsmanna. NIVEA krem og svo Júgursmyrsl sem var einskonar vaselín. Þetta létu flestar pjattrófur bara duga enda fátt annað í boði. Nivea var einskonar ríkiskrem sem kom blárri dollu með þunnum álpappír yfir kreminu og fá krem eða vörumerki eiga sér jafn fastan sess hjá bæði konum og körlum.
Áhugaverð saga
Beiersdorf, sem eru framleiðendur NIVEA, var eins og fyrr segir stofnað fyrir rúmum 100 árum í Þýskalandi af þremur frumkvöðlum. Vísindamanni, athafnamanni og húðlækni. Reyndar má segja að það hafi verið apótekarinn Carl Paul Beiersdorf sem stofnaði Beiersdorf töluvert fyrr, eða árið 1882, en það var töluvert seinna sem vörumerkið Nivea kom fram á sjónarsviðið.
Nivea kemur frá latneska orðinu niveus/nivea/niveum sem þýðir „Mjallhvít” en á fjórða áratug 20. aldar setti fyrirtækið á markað vörur eins og brúnkukrem, rakakrem og hárþvottalög svo fátt eitt sé nefnt en á níunda áratug 20. aldar – eða fyrir aldamótin 2000 urðu Nivea vörur mjög vinsælar um allann heim og varð fyrirtækið heimsfrægt fyrir vikið.
Stefna þess er að bjóða fjölbreytt úrval af góðum vörum á verði sem flestir ráða við. Til þess að halda verðinu í lágmarki er varan seld milliliðalaust til flestra landa í heiminum og allstaðar í heiminum er Nivea á góðu verði.
NIVEA húsið
Í heimaborg Nivea, Hamborg, er að finna sérlegt Nivea hús þar sem gestir geta komið í dekur á góðu verði. Nivea húsið er á þremur hæðum og er hverri hæð ætluð ákveðin þjónusta. Í kjallaranum er þemað hafið og þar er hægt að fá margskonar nudd og líkamsmeðferðir. Á miðhæð er verslun, snyrti -og hárgreiðslustofa og á efstu hæðinni er boðið upp á andlitsböð og fleiri dekur og snyrtistofumeðferðir.
Mér var boðið í nærandi andlitsmeðferð sem var hvergi síðri en sambærilegar meðferðir á dýrari stofum. Það var farið um mig mjúkum höndum og ég varð endurnærð eftir maskann sem þjálfaður snyrtifræðingurinn blandaði sérstaklega fyrir mína húðgerð.
Ég verð að segja að hugmyndir mínar um NIVEA hafa breyst talsvert eftir þessa heimsókn. Ég hef farið á rannsóknarstofurnar hjá Beiersdorf og veit hversu mikil vinna liggur á bak við gerð og framleiðslu varanna. Þær eru rækilega prófaðar (við erum að tala um þjóðverja) og þrautreyndar áður en þær eru settar á markað og það er ekki hikað við að taka vörur úr sölu ef þær mæta ekki gæðakröfum neytenda.
NIVEA vörunar eru ódýrar en það hefur lítið að segja um gæðin. Þær standast oftar en ekki dýrari merkjum samanburð enda eiga flestir sér eitthvað eftirlæti frá þessu merki. Hvort sem það er sturtusápa, krem, brúnkukrem, augnfarðahreinsir eða annað.
Hér eru nokkrar skemmtilegar myndir sem ég tók í Nivea húsinu… og ég skora á alla sem hyggjast ferðast til Hamborgar að panta sér tíma í þessu alþýðlega dekurhofi og fá góðar meðferðir fyrir lítinn pening.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.