Við könnumst allar við höfnun. Það er ömurlegt að fá höfnun frá einhverjum sem við erum hrifnar af. Að vera hafnað getur gjörsamlega farið með mann og við förum alltaf að hugsa hvað við gerðum rangt og jafnvel – afhverju hann sé ekki hrifinn af okkur.
Þú hittir einhvern, þið spjallið, náið vel saman, kannski er koss í spilinu og jafnvel heimferð. Svo er bara að bíða eftir símtali.
Það er hægara sagt en gert að bíða rólegur þegar maður er mjög hrifin af einhverjum. Ég sjálf á mjög erfitt með það að minnsta kosti. Þrátt fyrir það erum við ekki nógu duglegar við að taka af skarið og bara hringja eða senda sms sjálfar -og afhverju?
Jú, við erum hræddar við höfnun.
Ég á nokkra góða karlkyns vini sem kemur sér vel þegar kemur að því að fá ráð um karlmenn. Það skilur jú enginn karlmenn jafn vel og annar karlmaður!
Eftir mörg trúnaðarsamtöl við karlkyns vini hef ég komist að því að karlmenn eru alveg jafn hræddir við höfnun og konur. Það getur jafnvel verið mun erfiðara fyrir þá að taka af skarið því pressan er oftast sett á þá frekar en konuna ekki satt? Einhverskonar óskráðar reglur sem Bellu dagsins finnast persónulega frekar asnalegar.
Hvað gerist þegar báðir aðilar eru hræddir við höfnun og hvorugur hefur samband? Já mikið rétt, ekkert gerist!
Ég get sagt ykkur dæmisögu:
Stelpa og strákur voru saman í grunnskóla frá 6 ára aldri. Þegar þau voru komin í 10.bekk tók strákurinn loks af skarið og sagði henni hvernig honum liði, henni leið alveg eins. Þau voru búin að þekkjast í 10 ár án þess að þora að gera neitt. Ástæðan? Þau voru bæði hrædd við höfnun! Í dag eru þau 27 ára og eru ennþá jafn ástfangin og þegar þau kynntust.
Ef þau hefði bæði haldið áfram hræðslunni við höfnun hefðu þau sennilega misst af einu stóru ástinni í lífi sínu.
Sama hvort þú ert stelpa eða strákur, hugsaðu þig tvisvar um hvort það sé örugglega ekki þess virði að fá höfnun frekar en að vita aldrei hvað hefði getað gerst.
Hvað er það versta sem gæti gerst?
Prófaðu að svara þeirri spurningu og þú kemst að því að svarið er ekkert svo hræðilegt…
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.