Það er ekkert svalt við það að hríslast hokinn niður Laugaveginn að drepast úr kulda eða renna til í hálkublettum. Af nógu er að taka í verslununum þessa stundina af fallegum vetrarflíkum og því engin ástæða til að verða fórnarlamb kuldabolans.
Í vetur eru nokkrir fylgihutir sem koma sterkt inn ef þig langar til að fríska aðeins upp á fataskápinn með nýjustu tískustraumum. Uppreimaðir skór og stígvél hafa aldrei verið heitari og koma í stað ökklastígvéla síðasta veturs. Kuldastígvél eru svo gjarnan með þykkum gúmmísóla og fóðruð að innan með skinni. Það er til dæmis gott úrval af slíkum skóm í verslunum eins og Spúútnik og Gyllta Kettinum á viðráðanlegu verði. Persónulega er ég alltaf hrifin af svokölluðum “poncho” yfirhöfnum í anda Clints Eastwood. Poncho eru hlý og kósý og skjóta auk þess smá rokki í fataskápinn.
Pelsar eru sívinsælir og auðvitað ómissandi þegar frostið er óbærilegt en einnig finnast mér fallegir allskyns fylgihlutir úr skinni eins og hettur, húfur, kragar og ermastykki. Háir ullarsokkar eða legghlífar eru svo auðvitað stórsniðug tæki til að halda hita á leggjunum og eru auk þess smart og sexý.
Hér eru nokkrar hugmyndir að sniðugum flíkum sem ættu að dekka veturinn.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.