Tónlist hefur alltaf verið eins og meðal fyrir mig sem að nærir sálarlífið. Sama á hvaða stað ég er í lífinu þá virðist góð tónlist gera allt betra.
Tónlistarsmekkur minn hefur breyst með árunum – kannski jafnvel þroskast örlítið. Nú hlusta ég mikið á djass sem truflaði mig örlítið áður. Ég byrjaði í kór hjá Tótu í Kópavoginum sem krakki en það gerði óneitanlega mikið fyrir mig. Tóta eða Þórunn Björnsdóttir er ein af þessum einstöku konum sem hefur mótað mig á lífsleiðinni. Henni á ég óneitanlega mikið að þakka.
Í kórnum lærði ég að trúa á sjálfa mig. Þar lærði ég að hlusta og eignaðist vini. Þar fékk ég sjálfstraust. Það mætti segja að þarna hafi farið fram einhvers konar undirbúningur fyrir lífið. Okkur var kennt að bera virðingu fyrir hvoru öðru og standa saman sem heild.
Getið þið ímyndað ykkur lífið án tónaflóðs? Tónlist tengir fólk saman, heldur minningum á lofti og eykur sköpunarkraftinn. Hún hefur að sjálfsögðu mismunandi áhrif á fólk. Hún grætir og kætir. Sumir sjá tóna í litum á meðan aðrir geta ekki sofið án tónlistar. Aðrir tjá sig einungis í gegnum tónlist. Slökunartónlist Friðriks Karlssonar hefur til að mynda svæft börnin mín síðan þau komu í heiminn. Ég sá hann eitt sinn á flugvelli og var hársbreidd frá því að þakka honum fyrir. Í staðinn kinkaði ég kolli og heilsaði honum eins og ég þekkti hann: „Blessaður” – og gerði mig þar með að fífli…auðvitað.
Svo fyrir nokkrum dögum rakst ég á viðtal við undrabarn, Joey Alexander. Hann er aðeins 12 ára og spilar aðallega djasstónlist á píanó út um allan heim. Hann snerti mig með ótrúlegum hæfileikum sínum. Hér að neðan er brot af því hversu merkilegur hann er.
Njótið vikunnar og tónanna
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!