“Marriage is not a love affair. A love affair is a totally different thing. A marriage is a commitment to that which you are. That person is literally your other half. And you and the other are one. A love affair isn’t that. That is a relationship of pleasure, and when it gets to be unpleasurable , it’s off. But a marriage is a life commitment, and a life commitment means the prime concern of your life. If marriage is not the prime concern, you are not married.”
Joseph Cambpell
Ég hef verið að velta því aðeins fyrir mér hvers vegna svo margir eru í því sem maður kallar “lélegu hjónabandi” eða sambandi og af hverju um 60% af þeim sem gifta sig skilja.
Kannski er það vegna þess að fólk áttar sig ekki á því sem Joseph Campbell talar um? Það virðist óvenjulega sjaldgæft að fólk átti sig á því að sambandið/hjónabandið er sjálft líf þeirra.
Ég held að það sé alls ekki erfitt að vera í góðu hjónabandi og því er sorglegt að sjá hversu mörgum mistekst þetta.
Til þess að vera í góðu hjónabandi þurfa bæði að leggjast á eitt um að búa sér til góðar stundir. Eiga frítíma saman og vera samstíga í skyldum sem tengjast fjölskyldu og öðrum praktískum málum. Skipta með sér verkum á sanngjarnan hátt – gera sanngjarnar kröfur.
Nú hef ég ekki lesið margar reglubækur um þessi mál en ég held að þau stóru mistök sem margir gera er að líta á sjálfan sig sem einstakling eftir að “skuldbinding” við sambandið hefur verið gerð.
Ef þú lítur alltaf á sjálfa/n þig sem einstakling þegar þú ert komin í samband er hætt við að einingin fari út um þúfur og hvorugt kemur til með að njóta kostana sem felast í því að geta búið saman og verið í góðu sambandi.
Það sem gerist í góðu sambandi er að þú ert ekki lengur ég, þú verður við.
Því miður eru það of oft blessaðir karlmennirnir sem átta sig ekki á þessu. Þeir vilja stundum taka sambandinu sem gefnu og þeim láist að leggja sitt af mörkum. Þeir líta áfram á sig sem einstaklinga eftir að hafa “dregið laxinn á land” og vilja halda áfram að lifa sem einstaklingar sem taka mið af sjálfum sér og oft vinnunni sinni en láta skyldurnar sem tengjast þeirra eigin hamingju reka á reiðanum. Þeir vilja ekki takast á við vandamálin eða leggja sig markvisst fram um að byggja sambandið upp.
Sorgleg en satt þá gleyma þeir að með því að vanrækja sambandið eru þeir um leið eru þeir að skerða sína eigin lífshamingju.
Það þarf að deila tímanum skynsamlega niður og afmarka tíma fyrir það að rækta sambandsgarðinn. Til þess eru vissulega ótal margar leiðir en ætli einfaldasta setningin til að lýsa ræktinni sé ekki bara “að eiga saman góðar stundir.”
Og til þess þarf fólk ekki einu sinni að eiga sameiginleg áhugamál því það er svo margt hægt að gera sem gleður… hvort sem það er lítill göngutúr, ferð í bíó, leikhús, bústað eða bara sund – og þetta þarf að vera að frumkvæði beggja aðila.
“When you make the sacrifice in marriage, you’re sacrificing not to each other but to unity in a relationship,” sagði Joseph Campbell.
Fólk sem telur sig ekki ráða við slíka einingu ætti hugsanlega ekki að taka á sig þá skuldbindingu að vera í raunverulegu sambandi eða hjónabandi?
Og kannski eru konur oft tilbúnari vegna þess að með móðurhlutverkinu gerist það af sjálfu sér að konan (ef hún er heilbrigð) gefur sjálfa sig til barnsins og lætur þannig þarfir annarar manneskju framfyrir sínar eða leggur þær að jöfnu við sínar eigin (þegar barnið eldist)?
Hvort sem það er skýring eða ekki þá má vera ljóst að bæði karlar og konur verða að leggja sig fram til að fá notið hamingjunnar í sambandi og til þess þurfa báðir aðilar að gefa einstaklingshyggjuna upp á bátinn, hætta að vera ég og verða við.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.