Ég fann hvernig rassinn á mér hristist til og frá, upp og niður eins og þeyttur rjómi í hrærivél. Lærin líka og raunar allur líkaminn voru á fleygiferð. Ég gat ekki einu sinni hugsað heila hugsun, fann bara hvernig hjartað hamaðist inni í mér.
Þarna stóð ég sem sagt á brasilíska celulitetækinu hjá Jackie í Heilsusmiðjunni í þeim tilgangi að losa mig við dash af appelsínuhúð á lærunum. Þvílík átök.
Í Brasilíu, þaðan sem Jackie er ættuð eru þessi sérhönnuðu hjálpartæki kvenna geysilega vinsæl. Í þessu mekka baðstrandamenningarinnar leggja konur mikið á sig til að losna við appelsínuhúðina og vera í flottu formi á ströndinni. Mér datt auðvitað í hug að prófa, enda mjög forvitnilegt apparat. Þegar búið var að hrista mig í tuttugu mínútur tók síðan við alsherjar ryksugun í aðrar tíu með tæki sem rúllaði yfir og ofan í efsta lag húðarinnar á lærum, rassi og maga!
Þetta er eitthvað alveg nýtt fyrir mér, ef til vill fyrir þér líka en meðferðin ku virka vel í baráttunni við appelsínuhúðina. Sjálf dans-og söngdrottningin Madonna er víst með svona tæki heima hjá sér og stundar það reglulega.
Einn tími var hins vegar nóg fyrir mig og að honum loknum fékk ég frábært nudd. Ég prófaði einnig krem sem hún framleiðir sjálf úr íslenskum og brasilískum jurtum og bera hið skemmtilega nafn Yndisseiður. Þau eru náttúruleg, án allra aukaefna og ég er mjög ánægð með þau, einnig verðið sem mig minnir að sé undir þrjú þúsund krónum.
Svo er bara að bíða og sjá hvað gerist á lærunum.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.