Ég er að leita mér að kærasta. Þess vegna fórum við vinkonurnar út á lífið á föstudagskvöldið, ef til vill væri þar einhver flottur gaur?
Við settumst í leðursófana við barinn á 101 hóteli og pöntuðum okkur drykki. Við vorum rétt hálfnaðar með glösin þegar hinn dæmigerði íslenski karlmaður kom aðvífandi; Hann var eldhress enda vel drukkinn og marineraður af áfengi og í krumpuðum jakkafötum, sem einhvern tíma höfðu verið flott en það var fyrir löngu, löngu síðan. Hann bar líka þennan fallega giftingarhring og vildi ólmur bjóða mér í drykk!
-Nei, ég vil ekki drykk frá þér.
-Af hverju má ég ekki bjóða þér upp á drykk?
– Af því að ég vil ekki leyfa ókunnugum að borga fyrir mig. Svo ertu giftur og ég hef ekki áhuga.
Mér finnst þetta vera dæmigerð hegðun hjá mörgum karlmönnum hérlendis – bæði giftum og ógiftum. Þeir halda að þeir þurfi endilega að bjóða konu upp í drykk til að hún vilji tala við þá.
Þessi til dæmis (sem við gátum með engu móti losað okkur við), var staðráðin í að pína ofan í okkur drykk og færði sig sífellt meira upp á skaftið. Hann setti höndin á lærið á mér og nefið ofan í brjóstaskoruna hjá vinkonu minni. Hörmulegur karakter, við hálfpartin hlupum út!
Ég get svarið það… Ég sem eyddi hálftíma í að krulla mig fyrir kvöldið í þeirri von að hitta nú einhvern æðislegan. Það virðist vera þrautinni þyngra að kynnast manni í Reykjavík þar sem allt er fullt af þessum dæmigerðu íslensku karlmönnum. Vinkona mín kom samt með brilljant hugmynd:
“Bella, þessir flottu eru ekki að sukka á 101 á næturnar, þeir eru heima sofandi eða vinnandi.”
Ég spáði í þetta, auðvitað var það rétt. Svo nú hefur leitin að hinum eina og sanna tekið U-beygju. Vinkonan sagði að þessir flottu fari mikið út að borða á Nordia í hádeginu á föstudögum:
“Bella, við förum bara þangað og pöntum okkur súpu og vatnsglas og sýnum okkur.”
Auðvitað, þá er hægt að hitta þá edrú og flotta og taka mannskapinn út. Æðislegt hugmynd hjá vinkonu minni, ég skil bara ekki af hverju mér hafði ekki dottið þetta sjálfri í hug.
Svo, ef þú ert flottur maður í toppformi, endilega komdu á Nordica á föstudaginn og skimaðu eftir Bellunni!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún hefur lesið þúsund bækur um andlegan þroska og byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso. Bella er þannig að þú getur líka sagt henni allt. Hún dæmir engan og tekur á móti skilaboðum á: pjatt (hja) pjatt.is
7 comments
@Pjattrófan: ,,Það virðist vera þrautinni þyngra að kynnast manni í Reykjavík …”
Þrautinni þyngra?
Nei, Pjattrófa.
Það virðist vera þrautin þyngri að kynnast manni í Reykjavík.
Og meiri vitleysan sem valt uppúr þessum krumpukalli.
En ekki ,,vitleysunni meira.”
Verum pjöttuð í meðferð móðurmálsins.
Ég er ekkert af þessu sem er talið hérna að ofan. Veistu hvað. Ég hef aldrei náð mér í íslenska stelpu. Þannig að þetta er ekki eins einfalt og það sýnist.
Ég er blankur, á ekki bíl og er á lausu. Reyndar er ég flúinn frá Íslandi líka eftir nokkra mánuði.
já þetta er ágættur pistill en það sem vantar náttúrlega í hann er lýsing á hinni dæmigerðu íslensku stelpu sem passar bara alls ekkert svo illa við hin dæmigerða íslenska karlmann eins og þú lýsir honum. Allir sem hafa farið niður í bæ um helgar eða hafa rekist á íslenskar stelpur erlendis vita að þær gefa karlpeningnum lítið eftir í drykkjuskap og ósmekklegheitum. Ég hef farið út á lífið víða en hvergi þar sem ég hef komið drekka stelpur jafn mikið og illa og á Íslandi. Það má eiginlega segja að íslenskar stelpur hagi sér svipað og karlmenn annarsstaðar. Sem er líklega ágætt því þannig kannski viljum við akkúrat hafa ykkur.
Ritjúalið við það að ná sér í maka er líka mjög misjafnt á milli landa. Íslenska leiðin er að vera blekaður niðri í bæ um helgar. Ekkert verra en hvað annað (og þó) en það þarf tvo til að dansa tangó og því gefur það auga leið að íslenskar stelpur eru eins að þessu leitinu og strákarnir.
Þó svo að einhver fyllibytta hafi verið að reyna við þig á djamminu þýðir það engan veginn að allir íslenskir karlmenn séu eins og hann. Og maður á ekki að leita sér af kærasta á djamminu, það er bara heimskulegt.
Stelpur fara alltaf á djammið í von um að kynnas the one, því þær verða sjálfsöruggari með víni.
Drengirnir sem stelpurnar leita eftir, þessi duglegi, vinnusami, osfr. hangir ekki niðrí miðbæ um helgar, hann er í náminu sínu eða vinnunni og er einbeittur að sínum markmiðum sem hann kastar ekki á glæ með endalausum fylleríum niðrí bæ.
Tek undir með Hauki Loga, drykkjumenningin, “one night stand” menningin er orðin svolítið þreytt, en hún heldur áfram því það er í okkur og allir gera þetta í kringum okkur.
Við gætum alveg lært frá öðrum þjóðum hvernig má fara með víni og hvernig hægt væri að kynnast hinu kyninu á uppbyggilegan hátt án þess að vera hífaður.
Haha, finnskar stelpur slá nú samt okkur íslensku alveg við í drykkjunni 🙂
Þegar maður er milli tvítugs og þrítugs er í lagi að finna sér kærasta/kærustu á djamminu, því á þeim aldri eru flestallir á djamminu. (ég fann manninn minn allavega á djamminu þegar ég var 27 ára..)
En eftir þrítugt þá efast ég að það sé staðurinn til að finna sér maka, því álitlegir menn yfir þrítugu eru ekki mikið að djamma, þeir hafa aðra áhugaverðari hluti að gera.. allavega væru skemmtistaðir síðasti staðurinn sem ég myndi leita mér að maka ef ég væri á lausu í dag.
Lokað fyrir athugasemdir.