Ég er að leita mér að kærasta. Þess vegna fórum við vinkonurnar út á lífið á föstudagskvöldið, ef til vill væri þar einhver flottur gaur?
Við settumst í leðursófana við barinn á 101 hóteli og pöntuðum okkur drykki. Við vorum rétt hálfnaðar með glösin þegar hinn dæmigerði íslenski karlmaður kom aðvífandi; Hann var eldhress enda vel drukkinn og marineraður af áfengi og í krumpuðum jakkafötum, sem einhvern tíma höfðu verið flott en það var fyrir löngu, löngu síðan. Hann bar líka þennan fallega giftingarhring og vildi ólmur bjóða mér í drykk!
-Nei, ég vil ekki drykk frá þér.
-Af hverju má ég ekki bjóða þér upp á drykk?
– Af því að ég vil ekki leyfa ókunnugum að borga fyrir mig. Svo ertu giftur og ég hef ekki áhuga.
Mér finnst þetta vera dæmigerð hegðun hjá mörgum karlmönnum hérlendis – bæði giftum og ógiftum. Þeir halda að þeir þurfi endilega að bjóða konu upp í drykk til að hún vilji tala við þá.
Þessi til dæmis (sem við gátum með engu móti losað okkur við), var staðráðin í að pína ofan í okkur drykk og færði sig sífellt meira upp á skaftið. Hann setti höndin á lærið á mér og nefið ofan í brjóstaskoruna hjá vinkonu minni. Hörmulegur karakter, við hálfpartin hlupum út!
Ég get svarið það… Ég sem eyddi hálftíma í að krulla mig fyrir kvöldið í þeirri von að hitta nú einhvern æðislegan. Það virðist vera þrautinni þyngra að kynnast manni í Reykjavík þar sem allt er fullt af þessum dæmigerðu íslensku karlmönnum. Vinkona mín kom samt með brilljant hugmynd:
“Bella, þessir flottu eru ekki að sukka á 101 á næturnar, þeir eru heima sofandi eða vinnandi.”
Ég spáði í þetta, auðvitað var það rétt. Svo nú hefur leitin að hinum eina og sanna tekið U-beygju. Vinkonan sagði að þessir flottu fari mikið út að borða á Nordia í hádeginu á föstudögum:
“Bella, við förum bara þangað og pöntum okkur súpu og vatnsglas og sýnum okkur.”
Auðvitað, þá er hægt að hitta þá edrú og flotta og taka mannskapinn út. Æðislegt hugmynd hjá vinkonu minni, ég skil bara ekki af hverju mér hafði ekki dottið þetta sjálfri í hug.
Svo, ef þú ert flottur maður í toppformi, endilega komdu á Nordica á föstudaginn og skimaðu eftir Bellunni!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.