Nýlega trúði vinur minn mér fyrir því að vinnufélagar hans og vinir væru byrjaðir að kvíða því að finna “hina fullkomnu” jólagjöf handa konunni.
Hann sagði að þetta væri aðalhöfuðverkur flestra manna um jól því konur hefðu yfirleitt svo gífurlegar væntingar þegar kæmi að jólagjöfinni frá makanum. Það er ekkert leiðinlegra en að valda maka sínum vonbrigðum og gefa eitthvað sem hún skilar um leið og búðir opna eftir jól.
Fljótlega eftir þetta samtal rak ég augun í þennan pistil sem kunningi minn skrifaði um vandamálið. Stefán ráðleggur mönnum bara að gefa konunni sinni EKKI föt, skó eða ilmvatn. En hvað ef það er akkúrat sem hana langar í?
Lausnin gæti verið fólgin í að gera jólagjafalista, með myndum, fata- og nærfatastærðum svo gjöfin klikki ekki á smáatriði?
Önnur “lausn” er að sýna honum hvað þig langar í og þó mér finnist það ekki beint rómantískur eða spennandi kostur þá átti ég áhugaverðar samræður við nokkrar eldri konur fyrir jólin í fyrra.
Þær sögðu að mennirnir þeirra væru löngu hættir að gefa þeim jólagjafir, þær færu bara með þeim að versla og þeir borguðu það sem þeim langaði í. Ef báðir aðilar eru ánægðir með það þá er það ágætis fyrirkomulag en persónulega þá myndi ég frekar temja mér minni væntingar og vera ánægð með það sem mér er gefið því aðalatriðið finnst mér er gleðin yfir því að opna saman gjafirnar á aðfangadag.
Ég man reyndar ekki eftir að hafa nokkurn tíma verið óánægð með gjöf frá kærasta en maðurinn minn gleymir því seint þegar hann gaf mér yndisfagran kjól sem ég var mjög ánægð með en var of stór. Þegar ég ætlaði að skipta honum var ekki til minni kjóll og ég fann ekkert í búðinni sem mig langaði í og burðaðist með inneignarnótuna þangað til ári seinna að ég gat notað hana til að kaupa jólagjöf handa mömmu..Ohh
Þegar gera á jólagjafa-óskalista þá er málið að hafa nógu margt á honum til að hann hafi um margt að velja og komi okkur “á óvart”.
Ég notaði Polyvore til að búa til minn óskalista, skemmtilegt forrit sem gaman er að leika sér með.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.