Hefurðu einhverntíma velt því fyrir þér hvernig er umhorfs í húsi sem ríkasti Íslendingur sögunnar hefur átt?… Nei, ekki við heldur…
…en okkur fannst samt mjög gaman að rekast á þessar flottu myndir úr húsi í 101 Reykjavík sem var síðast í eigu auðjöfursins Björgólfs Thor Björgólfssonar. Það er að segja áður en það var keypt af Thomsen Apartments og sett í þetta glæsilega stand. Ekki að það hafi verið eitthvað slor áður en óhætt er að segja að stílistinn sem vann þetta fyrir Thomsen kunni vel til verka en það er hún FrökenFix innanhússráðgjöf.
Í húsinu er fallegur arineldur, líkamsræktarstöð, gufubað, heitur pottur og billiardborð svo sitthvað sé nefnt en stíllinn er svolítið sveitalegur en á sama tíma ákaflega elegant.
Ef marka má umsagnir yfir húsinu á AirBnB þá er þetta eflaust einn besti staður landsins til að gista á. Fólk gersamlega himinlifandi með bæði húsnæðið, ástandið á því og þjónustuna sem leigusalinn býður upp á.
Blái liturinn er ríkjandi í þessu fallega húsi, bæði á eldhúsinnréttingunni sem og víðsvegar um slotið. Til dæmis eru sturtan og heiti potturinn lögð í bláum flísum. Þvílíkt meistarahandbragð sem þar er lagt í vinnuna.
Svefnherbergið er sérlega skemmtilegt en á bak við japönsku rennihurðirnar er einstaklega fallegt og aftur fá flísarnar að njóta sín fádæma vel.
Að sögn leigusala tekur húsið um tíu gesti í næturgistingu sem gerir leiguna nokkuð hóflega miðað við gæði ef vinahópur skiptir upphæðinni á milli sín.
Gaman er að segja frá því að leikkonan Edda Björgvinsdóttir hefur einnig búið í þessu fallega húsi með fjölskyldu sinni.
Frekari upplýsingar um þetta fallega hús og útleiguna má finna bæði á AirBnB þar sem við fengum þessar myndir að láni sem og á Booking.com og hjá Thomsen Apartments.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.